Á loksins að nýta öll tækifærin?

Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar.

Það er fagnaðarefni að stjórnendur Sýnar skuli nú hafa ákveðið að opna aftur fyrir kvöldfréttir Stöðvar 2 svo landsmenn geti notið samkeppni í sjónvarpsfréttum en ekki aðeins áskrifendur Stöðvar 2.

Svo virðist sem Herdís Dröfn Fjeldsted, sem hóf störf sem forstjóri félagsins í byrjun árs, standi nú fyrir löngu tímabærum breytingum á ýmsum sviðum í starfsemi fyrirtækis sem sinnir fjarskiptaþjónustu og fjölmiðlarekstri og veitir ekki af.

Í íslenskum fjölmiðlaheimi hefur lengi verið ein stærsta ráðgátan hvers vegna stjórnendur Sýnar nýta ekki betur fjölmiðlahlutann til að taka forystu í umræðunni með fréttum, fréttatengdu efni og annarri dagskrárgerð sem skiptir máli og talað er um.

Undanfarin ár hefur fréttahluti Stöðvar 2 þróast með furðulegum hætti í einhvers konar eftirlíkingu af fréttamati RÚV; þar sem listaðar eru upp fréttir sem nær allir landsmenn hafa lesið á netinu allan daginn og bæta litlu eða engu við. Hér áður fyrr mátti stundum sjá ferskari efnistök í fréttum Stöðvar 2, alvöru kappræður í beinni útsendingu í fréttatengdum þáttum og skúbb inn á milli sem skóku þjóðfélagið.

Bylgjan, Stöð 2 og Vísir hafa öll færin til þess að ná aftur slíkri stöðu, en þá þarf að endurhugsa aðkomu frétta- og þáttagerðarfólks og rifja upp þau gildi sem komu fréttastofunni á sínum tíma framyfir fréttastofu RÚV í áhorfi og gæðum.

Lausnin felst ekki í því að búa til einkarekna útgáfu af ríkisreknum fréttum, heldur koma með aðrar hliðar og meira spennandi.

Slíkt ætti ekki að vera erfitt, ef kraftur er sett í þetta og reynslumikið fólk sett í málin. Værukærðin á RÚV gefur endalaus færi, t.d. vanhugsaðar breytingar á helsta spjallþætti stöðvarinnar, Silfrinu, sem hefur alveg týnst eftir að hann var færður yfir á mánudagskvöld. Þar á bæ tókst mönnum að bjóða upp á leiðinlegar og litlausar umræður sl. mánudagskvöld í beinni útsendingu á sama tíma og pólitiskir landskjálftar gengu yfir bak við tjöldin og verður satt best að segja að var töluvert afrek við slíkar aðstæður.

Hér í eina tíð var ríkisstjórn eiginlega slitið í beinni útsendingu í fréttaþætti Stöðvar 2. Í annan tíma hætti sitjandi forseti við framboð sitt í beinni útsendingu á Stöð 2 og skömmu sinna flugu neistar milli tveggja frambjóðanda til forsetakosninga, svo þjóðin tók andköf. Slíkir þættir náðu á topptíu lista yfir mest áhorf í íslensku sjónvarpi og skiptu máli. Til þeirra var vitnað.

Það er hægt að bjóða upp á alvöru dagskrárgerð, spyrja réttu spurninganna og nota öll þau tæknilegu færi sem miðlar Sýnar hafa upp á að bjóða. En þá þarf líka að nenna því…