„Frá og með morgundeginum hefjum við vegferð okkar, skref fyrir skref í átt að bjartari dögum. Við skulum njóta þess og muna að ástæðan fyrir því að hægt er að taka þetta skref í að slaka á samkomubanninu er sú að við höfum staðið okkur frábærlega og náð tökum á útbreiðslu veirunnar,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í ávarpi sínu til þjóðarinnar sem flutt var í kvöld.
„En við skulum við samt muna að faraldurinn geisar enn um heiminn og nú tekur við erfitt uppbyggingarstarf sem mun reyna á þolinmæðina. Ef við fögnum of snemma og missum einbeitinguna þá getur farið illa. Verkefninu er langt í frá lokið, og við verðum að vanda okkur.
Við verðum að vanda okkur fyrir börnin okkar, fyrir ömmur og afa, fyrir alla ástvini. Af því að markmiðið er að við gerum þetta saman og skiljum engan eftir þegar samfélagið opnast aftur. Við ætlum öll, ungir sem gamlir, veikir sem hraustir að geta notið sólarinnar, samvista og alls þess sem landið okkar góða hefur upp á að bjóða.
Við fórum saman í þessar aðgerðir og við ætlum að koma út úr þeim saman,“ sagði forsætisráðherra.