Kastljós gærkvöldsins sýndi landsmönnum hina umtöluðu fréttaskýringu Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur sem Ingólfur Bjarni Sigfússon hafði hrútskýrt svo eftirminnilega að væri ekki tæk til birtingar í fréttaskýringaþættinum Kveik, enda væri María Sigrún fín í að lesa fréttir en ekki góð í rannsóknarblaðamennsku, eins og það mun hafa verið orðað. Það má væntanlega skilja þannig, að strákarnir eigi að skrifa fréttirnar sem stelpurnar geti svo lesið.
Sjálfsagt er að fara rækilega ofan í saumana á bensínstöðvalóðamálum eftir fréttaskýringuna, en önnur stór álitamál blasa einnig við eftir þann varnarsigur fréttamannsins og fréttastofunnar, að láta ekki þagga frétt niður þrátt fyrir þrýsting um annað.
Ljóst er eftir Kastljósið, að sú ákvörðun að víkja Maríu Sigrúnu úr Kveiksteyminu vegna þessarar umfjöllunar og neita að birta hana, stenst enga skoðun. Hins vegar hrópar á landsmenn sú staðreynd, að útvarpsstjórinn Stefán Eiríksson sjálfur var borgarritari og staðgengill borgarstjóra um árabil og að nýr borgarstjóri kom í það embætti beint af fréttastofunni.
Einmitt vegna þessarar miklu og óvenjulegu nálægðar skiptir lykilmáli fyrir Ríkisútvarpið og fréttastofuna að landsmenn fái ekki á tilfinninguna að hún stýri umfjöllun eða liti um umdeild mál. Að vináttutengsl hafi semsé ekki áhrif á fréttamat. Ljóst er að það hefur mistekist með öllu. Þöggunartilraunin varð á endanum stærra fréttaefni, en umfjöllunin sjálf.
Það er fagnaðarefni að fréttamaðurinn hafi á endanum fengið tækifæri til að vinna sína vinnu, en staða ritstjóra Kveiks og útvarpsstjórans hlýtur að vera í fullkomnu uppnámi eftir þetta. Rétt er að taka hattinn ofan fyrir Maríu Sigrúnu og öðrum þeim á fréttastofunni sem stóðu með gagnrýnni blaðamennsku.