Biðin er á enda: Landsmenn verða límdir við tækin yfir Ófærð II

Önnur þáttaröð Ófærðar hefur göngu sína á RÚV í kvöld. „Við Íslendingar fáum fyrst allra að berja nýju þættina augum en þeir fara ekki í sýningu í öðrum löndum fyrr en eftir áramót. Þættirnir, sem eru tíu talsins, verða sýndir á sunnudagskvöldum fram í febrúar,“ segir Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri.

Maður gerir tilraun til að myrða iðnaðarráðherra á Austurvelli. Andri Ólafsson stjórnar rannsókninni sem flytur hann á kunnugar slóðir fyrir norðan. Ýmis leyndarmál eru geymd í sveitunum í kring og þegar starfmaður jarðvarmavirkjunar finnst myrtur er ljóst að málið er mun stærra en talið var í fyrstu. 

Aðalhlutverk eru sem fyrr í höndum Ólafs Darra Ólafssonar, Ilmar Kristjánsdóttur og Ingvars E. Sigurðssonar. Einnig fara Steinn Ármann Magnússon, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Aron Már Ólafsson og Sólveig Arnarsdóttir með stór hlutverk í þáttaröðinni.

Handritið skrifa Sigurjón Kjartansson, Clive Bradley, Margrét Örnólfsdóttir og Holly Phillips en leikstjórn annast Baltasar Kormákur, Börkur Sigþórsson, Ugla Hauksdóttir og Óskar Þór Axelsson.

Framleiðendur eru Baltasar Kormákur og Magnús Viðar Sigurðsson hjá RVK Studios. Þættirnir eru framleiddir í samstarfi við RÚV, ZDF, France Televisions, BBC, NRK, YLE, SVT og DR.

Óhætt er að segja nýrrar þáttaraðar af Ófærð sé beðið með mikilli eftirvæntingu um allan heim. Tugir milljóna fylgdust með fyrstu þáttaröðinni. Hún fékk frábæra dóma m.a. í Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi og Ástralíu, var vinsælasta erlenda þáttaröðin í Frakklandi 2016 og hlaut góðar viðtökur í Bandaríkjunum á Amazon Prime.

Ófærð hlaut Prix Europa-verðlaunin sem besta sjónvarpsþáttaröðin 2016 og Ólafur Darri var tilnefndur besti leikarinn á Golden Nymph í Mónakó.