Bowie og Mercury voru alltaf aðal hetjurnar mínar

Ljósmynd : RÚN

Helgarviðmælandi Viljans að þessu sinni er Magnús Jónsson. Við hittumst á Kaffibrennslunni í bolla áður en við röltum yfir á Gló þar sem listaverk hans hanga uppi.

Magnús hefur um árabil starfað sem leikari og tónlistarmaður á Íslandi.Tónlist, leiklist, myndlist, ritlist. Magnús segist una sér mest með þetta allt saman blandað og fléttað saman.

Magnús  fæddist á Selfossi en er alinn upp fyrstu árin í Þykkvabænum og Fljótshlíðinni. Á táningsárum bjó hann í Garðabæ. Hann endaði síðan í Reykjavík 16 ára gamall og hefur búið þar síðan. 

Hvenær byrjaðir þú að tjá þig á listrænan hátt ? 

„ Músíkin kom fyrst af öllu, held ég, svo fór ég í teikna en leiklistin kom seinna. Leiklistin kom eiginlega í kjölfar meðvirkni, Gummi vinur minn plataði mig í leiklistarskóla Helga Skúla og þá var ekki aftur snúið. Mínar hetjur voru samt aðallega David Bowie og Freddie Mercury en ekki leikarar ,  nema kannski Clint Eastwood og Roger Moore var minn James Bond en það var seinna sem leiklistaráhuginn óx. Músík var alltaf aðal þráðurinn og þaðan kom líklega áhuginn á bíómyndum, ég veit ekki, þetta er soldið blörrað í minningunni, ég var reyndar kallaður Maggi bíóglaði á yngri árum því ég var alltaf í bíó. Leiklistin var ekki númer eitt en kom bara með í flæði þegar ég eltist til meira vits. Bowie og Mercury voru alltaf aðal hetjurnar mínar, leiklistarorientaðir músikantar með stórfenglegar sviðsnærverur.

Magnús lærði á píanó sem barn, var í 80’s hljómsveitum og var líf hans þétt fléttað við tónlistina frá fyrstu tíð. En svo kom að því að hann þurfti að hætta í hljómsveit sinni “Barbie” þegar hann komst inn í Leiklistaskólann vegna framkomubanns. Það bann virkaði þannig á þeim tíma svo að nemendur máttu ekki koma fram opinberlega eða sjást formlega í 4 ár á meðan á náminu stóð. 

Árið 1989, stofnaði Magnús samt Silfurtóna í laumi með Bjarna Bömmer og Júlla Heimi inn í barnaherbergi Heklu dóttur sinnar þótt hann væri enn í námi. Hann útskrifast svo sem leikari árið 1991 og fer beint á fastan samning hjá Borgarleikhúsinu þar sem hann var í fjögur ár. Árið 1995 fæðist svo GusGus.

„Þegar við stofnuðum GusGus þá fékk ég tækifæri til þess að þroska performansinn hjá mér betur, það að flétta saman tónlist og framkomu. GusGus byrjaði sem stuttmyndin NAUTN og plata kom svo í kjölfarið á að við vildum gera eitthvað meira saman hópurinn ,við ætluðum samt ekki að gera neitt meira en það. Skömmu seinna flutti ég út til Los Angeles, ári síðar fengum við samning hjá plötufyrirtækinu 4AD. og þá snéri ég aftur heim til að undirbúa fjöllistahópinn með krökkunum í Gus Gus eins og þetta var fyrst. Við spiluðum um alla Evrópu og Ameríku, boltinn rúllaði mjög hratt. Þetta var allt svo nýtt, það var ekkert um svona hér heima, bara Björk og Sykurmolarnir voru búin að fá almennilega athygli utan landsteina, og svo komum við.“

Magnús fékk að lokum leið á Gus Gus ævintýrinu og fór yfir í að gera sína tónlist sjálfur og þá fæddist alteregoið BLAKE sem hefur fylgt honum síðan. Árið 2000 gaf hann út sólóplötuna DDD featuring Blake sem hann pródúseraði með Magga Lego og Hlyn Jakobs, og síðan geisladiskinn BB&BLAKE ásamt Veru Sölvadóttur og Árna Kristjáns, það band var langlíft og að sögn Magnúsar er það kannski enn.

Ljósmynd : RÚN

Þú hefur undanfarin ár verið iðinn listmálari, hvenær byrjaði þú að mála ? 

„Ég hóf að mála fyrir um 15 árum sirka. Móðir mín er Hrafnhildur Sigurðardóttir listmálari. Hún byrjaði líka að mála frekar seint eins og ég, kannski varð ég fyrir áhrifum frá henni með þetta, ég er ekki viss. Ég byrjaði samt í raun að mála út frá tónlist, út frá tónlistinni kom þörfin fyrir að mála held ég. Ég er ekki með gott sjónminni en heyrnarminnið er frekar næmt, ég fór að heyra litina og formin koma til mín. Smátt og smátt byrjaði myndin að koma til mín á strigann eftir þeim leiðum, það skilja þetta fáir en svona upplifi ég þetta.

Sólin við Rauðufjöll / Magnús Jónsson

Stíll Magnúsar í málverkum hans hefur fengið verðskuldaða athygli, eru myndirnar litríkar og glaðlegar. 

„Ég var búinn að vera langt niðri og málaði frekar dark myndir áður en ég fór að mála í þessum stíl. En þú skapar ekkert í neikvæðni, ef þú ætlar að vera í frumsköpun því í þannig ástandi þá festist þú þar. Ég var fastur í einhverju darknessi og það fór á strigann. Enginn vildi sárangist mína á veggina sína. Þetta var kannski eins og Goth tónlistarstefnan, hún er voðalega takmörkuð finnst mér því hún byggir á neikvæðum tilfinningum…Depurð, hatri, reiði og minnimáttarkennd, þetta er concept sem nær ekki lengra. Allavega eins og ég sé það, eflaust er einhver ósammála mér og það er í góðu lagi, en á sama hátt leið mér með þetta darkness sem ég var í. Enginn kærleikur.

Helladansinn / Magnús Jónsson

„Ég er alinn upp í sveit sem barn, dýr og naívismi tengjast þeim minningum. Orka krakkanna er gjöful sköpunarorka sem hefur enga endurskoðun. Ég reyni í dag að vinna út frá kærleika barnsins, birtunni og ljósinu og einfaldleikanum, það endurspeglast síðan vonandi í málverkunum mínum.

Varðandi myndlistina finnst Magnúsi gott að fara yfir í hana við og við, hann máli kannski mikið í tvo mánuði og svo ekki neitt. Það er allur gangur á því. Þegar hann málar hefur hann handrit kannski opið eða lag sem hann er að semja svo hann geti hoppað á milli þess að skrifa og mála eða semja tónlist.

Draumur við Stuðlaberg / Magnús Jónsson
Rauðufjöll og skepnur / Magnús Jónsson

Hér má sjá meira um og af myndlist Magnúsar. 

Magnús frumsýndi mynd í vor sem ber heitið Taka 5. 

Hvernig gekk ?

„Taka 5 er svört gamanmynd sem ég gerði fyrir nánast engan pening. Ég var að gera hlutina næstum alveg einn og það varla trúir neinn að maður hafi gert heila mynd svona. Maður var að skrifa, leikstýra, sjá um búninga, tónlist,klippa, gera foley og annað sjálfur. Þetta er ekki eitthvað sem ég mæli með að fólk geri þótt lærdómurinn hafi verið ómetanlegur. Þetta er fyrsta myndin sem ég hef gert í fullri lengd. Leikarar og tökukonan, sem er kærastan mín og hljóðmaður lánuðu mér vinnu sína og eiga öll hlut í myndinni.“

Myndin Taka 5 fékk mikið lof og góðar undirtökur gagnrýnenda. 

„ Þetta var low budget mynd og ég hugsaði alveg um hvað bransanum fyndist um þetta, að maður væri að gera mynd framhjá öllum og er ekki að taka styrki eða fá græjur, maður var soldið að pönkast og vonandi var þetta pönk mitt hvatning fyrir aðra að gera eins því tæknin í dag er orðin aðgengilegri en hún var fyrir fyrir tíu árum síðan. Þarna opnuðust leiðir með því að vaða út í laugina kútalaus og ég lærði betur út á hvað kvikmyndagerðin gengur. Nú get ég átt dialog við alla í öllum stigum framleiðslunnar um allt. Ég keypti mér masterclass með Werner Herzog og tveimur mánuðum seinna var ég kominn í tökur.

Magnús er þessa dagana að skrifa nýtt handrit að bíómynd sem hann mun einnig leikstýra, Saga Film mun sjá um framleiðslu og Magnús er kominn með tvo handritsstyrki sem opnar vonandi á fleiri möguleika í framhaldinu. Segir hann myndina vera svarta kómedíu og spennumynd. 

Magnús er einnig leiktæknikennari eins og margir vita og spáir hann mikið í mannlegt eðli.

Magnúsi finnst heillandi að búa til ýktan veruleika í skrifum sínum, satíru útgáfa af samtímanum og fleygja svo manneskju inn í þannig aðstæður, þar sem hún þarf að bjarga sér.

„Ég hef gaman að skrifa “Faulted“ karaktera inn í erfiðar aðstæður. Ég spyr mig kannski spurninga eins og “Hvað ef við lendum í aðstæðum sem við þurfum að bregðast við þar sem lærð og ímynduð hegðun og viðbrögð fara ekki saman? Til dæmis get ég ímyndað mér að ef það kviknar í húsi þar sem ég er sofandi, þá til dæmis myndi ég vakna, bjarga öllum, hoppa fram af svölunum og grípa í straur og sveifla mér niður, voða rómantískt og hetjulegt allt saman þegar ég hugsa það og ímynda mér hvað ég myndi gera, en svo er veruleikinn yfirleitt allt annar þegar eitthvað raunverulega gerist. Það til dæmis kviknaði í hjá mér fyrir mörgum árum, ég var búinn að sjá í hillingum hetjuna mig, bregðast við með rómantískum hætti ef það gerðist. En viðbrögðin mín voru gjörsamlega allt önnur en ég hafði ímyndað mér, ég réðst bara á eldinn,hugsunarlaust eins og eitthvað öskrandi brjálað ljón. Ég skil ekkert hvernig ég fór að því að slökkva eldinn eða hvað ég var að hugsa en ég náði að slökkva eldinn á um 20 sekúndum. Mín ímynduðu viðbrögð voru semsagt allt öðruvísi en það sem ég síðan gerði þegar á reyndi.“

Aðspurður hvort hann eigi sér uppáhalds atvinnugrein segir hann allt tengjast saman og öll reynsla nýtist, eins og til dæmis í kvikmyndirnar núna. Allir þræðir séu nú samankomnir í kvikmyndaforminu.  Magnús er þó enn mjög hrifinn af því að leika stóra skrítna karaktera, má þar nefna : Master of Ceremony í Kabarett og Frank N Furter í Rocky Horror.

Ljósmynd : RÚN

Leiktækniskóli Magnúsar og Þorsteins Bachmann er nú á sínu tíunda starfsári. 

Hvernig lítur framtíðin út hjá skólanum ? 

„Ég og Þorsteinn höfum fylgst að í mörg ár eða frá um 22 ára aldri, við vorum saman í Leiklistarskóla Helga Skúlasonar og bekkjabræður í Leiklistaskóla Íslands í 4 ár. Við erum meira að segja það mikið samferða að ég er einum degi eldri en hann. Þorsteinn er nú að kveðja leiktækniskólann vegna annarra starfa en ég mun halda áfram með skólann. Sú tækni sem kennd er í leiktækniskólanum er góð og aðgengileg en kennt er eftir aðferð Michael Chekhov.

Hægt er að lesa meira um Leiktækniskólann hér

Hverjir eru kostir og gallar þess að vera íslenskur listamaður ?

Listamenn eru með stórmennskubrjálæði og minnimáttarkennd á sama tíma, þetta er góð blanda til þess að skapa en það er helvíti erfitt að eiga í samræðum við aðra sem eru eins, það eru allir með svarið við öllu. Soldið einkennandi við þessa blessuðu þjóð okkar kannski sem ég elska og dái og hata og þoli ekki á sama tíma. Og trúðu mér ,ég er verstur með þetta.

Hver er uppáhalds staður þinn á Íslandi ? 

„Að vera niðri við stönd í Þykkvabænum og horfa norður, upp á eftir landinu sínu er meistaratilfinning sem er engu lík. Búrfellið, Hekla, Eyjafjallajökull, hin stórfenglegasta fjallasýn og víðáttan fullkomin í fjarska.

Hver er þinn uppáhalds staður í útlöndum ? 

„Ég myndi segja Lissabon, ég er einhvern veginn alltaf að reyna að flytja þangað, það er svo góð orka þar og portúgalir nokkuð svipaðir okkur, eins og við höfðum dani sem stjórnuðu hér lengi voru þeir með spánverjana lengi yfir sér. Þarna eru einhver falleg þóðareinkenni sem ég tengi sterkt við sjálfur.

Eitthvað að lokum ? 

Eltið drauma ykkar og látið engan segja ykkur að gera annað.

Ljósmynd : RÚN

Blaðakona Viljans þakkar Magnúsi kærlega fyrir spjallið.

Meira um Magnús má finna á heimasíðu hans magnusjonsson.is