Eftir 20 mánaða faraldur verðum við að geta rætt hvaða leiðir er best að fara

Þegar heimsfaraldur kórónaveiru hefur staðið í tuttugu mánuði og við erum enn í því að svara kröfum um hertar samkomutakmarkanir og búum við strangari aðgerðir en löndin í kringum okkur, er rétt að spyrja gagnrýnna spurninga, segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.

Hún ræddi möguleikann á breyttum sóttvarnaáherslum í spjalli í beinni útsendingu á instagram við Björn Inga Hrafnsson, ritstjóra Viljans, þar sem kom meðal annars fram að alla áherslu eigi að leggja á að Landspítalinn ráði við ástandið og faraldur sem geti staðið enn í mörg ár í viðbót. Spítalinn þurfi að laga að aðstæðum, en ekki eigi að laga samfélagið að stöðunni á spítalanum á hverjum tíma.

Áslaug Arna segir ekki hafa staðið á ríkisstjórninni eða fjármálaráðuneytinu undir forystu Sjálfstæðisflokksins að útvega nægt fjármagn til Landspítalans, enda gefi auga leið að ódýrara sé að tryggja að hann ráði við ástandið en grípa sífellt til aðgerða í samfélaginu sem valdi þungum búsifjum fyrir fólk og fyrirtæki.

Þá veltir hún fyrir sér réttindum barna, sem eigi skýlausan rétt á eðlilegu lífi og ekki megi brjóta þeirra mannréttindi til að vernda aðra hópa. Miða eigi aðgerðir við nágrannalöndin þar sem jafn vel hafi gengið í bólusetningum og staðreyndin sé að nú gildi harðari reglur hér en í þeim löndum.

Áslaug Arna kveðst taka að sér þau trúnaðarstörf sem henni eru falin, þegar hún er spurð hvort hún gæti hugsað sér að verða heilbrigðisráðherra í nýrri ríkisstjórn sem verið er að mynda. Hún hefur verið æðsti yfirmaður almannavarna undanfarin tvö ár, eða allan tímann sem faraldurinn hefur staðið, og kveðst ekki taka til sín gagnrýni frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni á þá sem tala ástandið niður. Eftir tuttugu mánuði verði að vera hægt að ræða málin og hvaða leiðir sé best að fara. Það séu eðlileg skoðanaskipti í lýðræðisríki og hún samþykki ekki að með því að ræða frelsi borgaranna sé hún að láta eins og henni sé ekki annt um heilsu fólks. Huga verði að fleiri þáttum en Covid-19 í því sambandi.