Einstakt viðtal Zelenskys við rússneska blaðamenn

Í gær, sunnudaginn 27. mars, átti Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, einstakt 90 mínútna sjónvarpsviðtal við rússneska blaðamenn sem nú hefur verið birt opinberlega með enskum skýringartextum og Viljinn birtir hér í heild sinni.

Ekki þarf að fjölyrða um það, að með viðtalinu og birtingu þess hafa rússnesku blaðamennirnir brotið ný lög í Rússlandi sem banna tiltekna umfjöllun eða ummæli um innrásina í Úkraínu og gerir það viðtalið enn merkilegra en ella.

Jón Ólafsson, prófessor í rússneskum fræðum við Háskóla Íslands, segir þetta um viðtalið á fésbókinni:

„Það gleymist stundum þegar sem mest er talað um að búið sé að slátra öllum frjálsum fjölmiðlum í Rússlandi að þar er (var) þrátt fyrir það hópur frábærs fjölmiðlafólks sem hefur haldið uppi ótrúlega mikilli umræðu, umfjöllun og fréttamennsku þrátt fyrir ömurlegar og sífellt verri aðstæður. Margir hafa látið lífið – allt frá Önnu Politkovskaju árið 2006 (og auðvitað fyrr) til Oksönu Baulinu í Úkraínu í síðustu viku. Hér taka nokkrir sig saman í viðtali við Volodymyr Zelenskí: Tikhon Dzyadko (Dozhd), Vladimir Solovjov (Kommersant), Mikhail Zygar (sjálfstæður) og Ivan Kolpakov (Meduza). Dmitrí Muratov (Novaja Gazeta) tók þátt í undirbúningnum en er ekki með í samtalinu. Að sjálfsögðu bannaði Roskomnadzor strax alla dreifingu á þessu viðtali innan Rússlands. Það hefur enn enginn sett enska þýðingu inn á þetta mér vitanlega, en sjálfvirka enska þýðingin virðist virka.“