Elskar sumarnætur, en líka gott þegar fer að dimma smá

Steinunn Ása Þorvaldsdóttir, þáttastjórnandi og frumkvöðull, er 35 ára gömul, hún ólst upp í Vesturbænum og býr þar enn. Hefur hún ferðast mikið og bjó meðal annars í Feneyjum í tvö ár með foreldrum sínum sem störfuðu þar. Hún hefur á undanförnum árum komið að margvíslegum verkefnum og henni finnst gaman að prófa nýja hluti. Þar á meðal má nefna framboð fyrir Bjarta Framtíð árið 2017.

Steinunn Ása lauk diplómanámi frá Háskóla Íslands, hefur hún síðan kennt í diplóma náminu og í þroskaþjálfafræðum.

Eitt af því sem hún vinnur við í dag er sem þáttastjórnandi hjá vinsælum þætti sem ber heitið Með okkar augum, þar sem hún og kollegar hennar fara yfir málefni fatlaðs fólks. Þátturinn sem sýndur er á RÚV hefur fengið frábærar viðtökur og hlaut hann Mannréttindaverðlaun Reykjavíkuborgar árið 2017 og Eddu-verðlaun fyrir menningarþátt ársins sama ár. Níunda sería þáttanna er væntanleg í ágúst á þessu ári.

Steinunni Ásu finnst mjög hvetjandi að vinna í mannréttindamálum og á starfið hennar vel við þar sem hún vinnur að ýmsum verkefnum á Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkuborgar. Það starf er mjög fjölbreytt, hjálpar hún fötluðu fólki að gæta réttinda sinna og sinnir ýmsum skrifstofustörfum.

Árið 2017 hlaut Steinunn Ása verðlaunin Framúrskarandi ungur Íslendingur en verðlaunin eru veitt árlega af JCI samtökunum á Íslandi. Vann hún verðlaunin með tilliti til starfa og afreka á sviði menningar.

,,Framtíðin er björt og er margt og mikið að gerast. Ég er mikil tónlistar kona og elska Spotify. Ég ætla að halda áfram að gera vel við sjálfa mig’’.

Hvað ætlar Steinunn Ása að gera í sumar ?

Í sumarfríinu ætlar Steinunn Ása að vera í bænum en einnig að ferðast smá utanbæjar. Henni finnst mikilvægt að slaka á líka.

,,Ég elska sumarkvöldin og sumarnætur en ég hef aldrei farið í tjaldútilegu eða í tjaldvagn svo það væri gaman að prufa það. Ég elska líka grillmat og kósý heit.

Svo er líka gott þegar það fer að dimma smá’’.


Íslendingar eru allskonar, sem gerir það að verkum að þjóðin er ekki síður skapandi en þenkjandi. Fólk sem hefur fæðst hér og flutt hingað setur sitt skemmtilega mark á samfélagið sem færist síðan stundum með þeim út í heim. Eins og oft hefur verið sagt, ætli það sé ekki eitthvað í vatninu. Viljinn náði tali af nokkrum einstaklingum til þess að sjá hvað þeir eru að gera í lífinu og hvað planið hjá þeim sé í sumar.  – María Rún Vilhelmsdóttir tók saman.