Stefán Einar Stefánsson í Spursmálum Morgunblaðsins hefur boðið upp á mest spennandi sjónvarpsefnið fyrir forsetakosningar þegar kemur að viðtölum við frambjóðendur. Ofgnótt er af allskonar viðtölum í fjölmiðlum og hlaðvörpum, en þrjú viðtöl Stefáns Einars við þau Katrínu Jakobsdóttur, Baldur Þórhallsson og Höllu Hrund Logadóttur hafa vakið þjóðarathygli.
Þegar Spursmál fóru í loftið gaf Stefán Einar það út, að þar yrði spurt alvöru spurninga og málum fylgt eftir. Það hefur gengið eftir. Fyrir þremur vikum töldu margir hann sauma allt of fast að Katrínu Jakobsdóttur, m.a. vegna landsdómsmálsins og lagasetningu um fóstureyðingar. Viku síðar tóku hinseginsamfélagið og fleiri andköf yfir spurningum hans um Icesave og kynlífsklúbba í útlöndum og í gær þurfti Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri að svara fyrir erfið mál tengd embættisfærslum hennar og framboðinu.
Öll viðtölin eiga það sameiginlegt að hafa vakið upp mikla reiði stuðningsmanna frambjóðendanna þriggja. Í öll skiptin var Stefán Einar sakaður um að hafa gengið of langt, en við blasir að hann hefur sett línu sem þáttastjórnandi og er einfaldlega að fylgja henni.
Seint verður sagt um siðfræðinginn Stefán Einar að hann sé óumdeildur maður, eða fari leynt með skoðanir sínar á mönnum og málefnum. En hann er á hárréttri leið með Spursmálin sín; Morgunblaðsvefurinn hefur fengið úrvalsefni sem tryggir gott áhorf og fjölmörg tækifæri til frétta og eftirfylgni og áhorfendur fá á tilfinninguna, að þarna sé kominn þáttur sem verði að fylgjast með.