Guðni Th. Jóhannesson er nýendurkjörinn forseti Íslands, hann fékk 92,2% atkvæða í kosningunum í gær og segir þennan mikla stuðnings auka sér kraft.
„Ef ég væri álitsgjafi ennþá, held ég geti fullyrt að svona afgerandi niðurstöðu höfum við ekki séð í Evrópu á þessari öld. Við Íslendingar getum þakkað fyrir það að eiga þetta embætti sem við getum sameinast um,“ sagði forstinn í dag þegar hann settist niður með Birni Inga Hrafnssyni í Hlaðvarpi Viljans og ræddi kosningabaráttuna, persónuárásir sem henni fylgdu og það sem framundan er.
- Það kom Guðna ekki á óvart að hann skyldi fá mótframboð, átti hálfpartinn von á því. Það sé tímanna tákn og sú hvelgi sem hvíldi yfir embættinu sé annars eðlis í dag en var hér áður fyrr.
- „Okkur mannfólkinu fjölgar hér á landi, en tala meðmælenda sem þurfa að lýsa fylgi við forsetaefni svo það megi bjóða sig fram, er óbreytt frá árinu 1944 þegar hér var stofnað lýðveldi og embætti forseta.“ Auk þess var vegna veirunnar unnt að safna meðmælum rafrænt og þá er þessi leikur orðinn auðveldari en ella, sem er umhugsunarefni.
- Stjórnarskránni verður ekki breytt á Bessastöðum. Valdið hvílir hjá þjóðinni og þeim fulltrúum sem hún kýs til að sitja á Alþingi. „Mér þætti ótrúlegt ef við sjáum engar breytingar á kaflanum um forseta Íslands i stjórnarskránni á næstu árum. Þá um leið þætti mér líklegt að ákvæðin um tilskilinn fjölda meðmælenda taki einnig breytingum.“
- Kveðst ekki vera hluti af einhverri elítu, eins og haldið var fram í kosningabaráttunni. Gengur um meðal fólks, fer í sund og á íþróttamót og talar við fólk alls staðar að og finnur aldrei fyrir því að gjá sé milli sín og þeirra. Þetta elítutal er bundið við fámennan hóp fólks með mjög sterkar skoðanir.
- Það að fá svona yfirgnæfandi stuðning í kosningunum nú eykur manni kraft. „Það sem ég hef verið að gera undanfarin ár er vel metið.“ Kemur alveg fyrir sú tilhugsun að gaman væri frekar að sitja á Þjóðdeild Landsbókasafnsins og grúska í gömlum skjölum. „En þessi stuðningsyfirlýsing nú er svo afgerandi og mikilvæg mér að ég fyllist kappi að takast á við þetta verkefni næstu árin.“
- Ekki mistök að hafa ekki synjað neinum lögum staðfestingar og vísa til þjóðarinnar. Tilefnið verður að vera ríkt og aðstæður til staðar. Hafið yfir vafa að gjá sé milli þings og þjóðar.
- Ómögulegt og sörglegt að færa okkur áratugi aftur á bak í jafnréttisbaráttunni með því að gagnrýna atvinnuþátttöku eiginkonunnar Elizu Reid. Hann geti látið ýmislegt yfir sig ganga, en grípi til varna þegar um er að ræða maka hans og börn. Blessunarlega hafi slíkur málflutningur nær engan hljómgrunn meðal Íslendinga. „Við viljum ekki svona kosningabaráttu. Sama hver situr á Bessastöðum þá leyfum við þeirri manneskju að eiga sitt einkalíf í friði.“
- Beygur í landsmönnum, veiran komin aftur á ferðina. Við sýndum hvað í okkur býr, lögðum traust á sérfræðinga okkar í almanna- og veiruvörnum. Stóðum saman og fórum í einu og öllu eftir leiðbeiningum og tilmælum. Láta það vera vegarnestið áfram, baráttunni er hvergi nærri lokið. Taka okkur á ó grunnatriðunum. Viðkvæmasta málið verða samskiptin við umheimin. Verkefni númer eitt, tvö og þrjú að hugsa um heilsu fólks. En huga þarf líka að því að hjól atvinnulífsins geti snúist og fólk hafi hér atvinnu og tekjur. Að ná jafnvægi í þessu er verkefnið.
- Fékk staðfest í þessari kosningabaráttu að Íslendingar vilja að forsetaembættið sé hafið yfir argaþras stjórnmálanna frá degi til dags. Þykir vænt um það.