Gullæðið

Ástæða er til að mæla með hinni frábæru þáttaröð Gull (e. Gold) frá BBC sem er nú aðgengileg í Sjónvarpi Símans. Hugh Bonneville, sem þekktur er fyrir hlutverk lávarðarins í Downton Abbey og fjölskylduföðursins í Paddington-kvikmyndunum, er þar í aðalhlutverki ásamt Jack Lowden og Dominic Cooper í sex þátta röð sem byggir á sannsögulegum atburðum.

Hinn 26. nóvember 1983 brutust sex menn í öryggishvelfingu Brink´s Mat við Heathrow-flugvöllinn í London og römbuðu óvart á gríðarlegt magn gullstanga sem þar voru í geymslu. Ránið vakti þjóðarathygli og skipuð var sérsveit á vegum lögreglu til að hafa hendur í hári þjófanna og vitorðsmanna þeirra í peningaþvætti sem þræddi sig um hin ólíku stéttarlög bresks samfélags og alþjóðlegra skattaskjóla.