Hannes segir sótt að Bjarna Benediktssyni frá vinstri og hægri

„Núverandi formaður [Sjálfstæðisflokksins] er í þröngri stöðu, það er sótt að honum úr tveimur áttum. Annarsvegar Miðflokkurinn sem sækir að honum frá hægri, þrátt að kalla sig Miðflokk, og hinsvegar frá vinstri, sem er Viðreisn sem hefur stillt sér upp við hliðina á Samfylkingunni. Því er úr vöndu að ráða fyrir formanninn, hann getur misst fylgi í báðar áttir eftir því hvernig vindarnir blása,“ sagði Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor og stjórnmálaheimspekingur. Hann var beðinn um mat sitt á stöðu Sjálfstæðisflokksins á 90 ára afmæli flokksins, í Hrafnaþingi í sjónvarpi mbl.is hjá Jóni Kristni Snæhólm. 

Eru menn í barnalegri fýlu?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í sviðsljósinu undanfarnar vikur vegna deilna ýmiss áhrifafólks innan og utan flokksins, til dæmis um 3ja orkupakkann o.fl. Spurningunni var velt upp hvort að „menn séu í einhverskonar barnalegri fýlu“. Davíð Oddsson, Þorsteinn Pálsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hafi t.d. ekki látið sjá sig á afmælishátíðinni, „til að þiggja eina pulsu“, en það gerðu þó formenn og áhrifamenn ýmissa flokka.

„Þegar allt gengur svona vel, þá er það undrunarefni að [Sjálfstæðis]flokkurinn skuli ekki hafa meira fylgi“, segir Hannes, sem telur skýringuna kannski að finna í því að fólk taki velgengni sem sjálfsagða. Ísland hafi risið úr öskunni árið 2013 og að ástæður hraðs og góðs efnahagsbata sé m.a. að finna í að þrátt fyrir höggið sem hrunið veitti, þá hafi þegar verið lagður góður grundvöllur fyrir slíkri endurreisn, t.d. með auknu viðskiptafrelsi sem grunnur var lagður að á árunum á undan.

Gamla fólkið vs. unga fólkið

Hannes telur ákveðna þróun eiga sér stað í Evrópu og að kjósendahópurinn skiptist í tvo hópa, annars vegar unga fólkið sem er fullt vonar og á framtíðina fyrir sér, vill opna heiminn og tækifærin og hinsvegar eldra fólkið sem er búið að fá sitt og er hrætt við nýjungar og breytingar. Úti í Evrópu sé unga fólkið er að verða ópólitískara á meðan gamla fólkið, stækkandi hópur í Evrópu, verður meira pólitískt.

Popúlískir hægri flokkar hafi náð að nýta sér eðlilegar áhyggjur eldra fólksins af innflytjendum sem ekki vilja laga sig að þjóðfélögunum. Sjálfur kveðst Hannes sem frjálshyggjumaður vera opinn fyrir innflutningi fólks sem ætlar að vinna, ekki þiggja velferðarbætur, og er andvígur því að opna á að glæpamenn og ofstækismenn komi. 

„Það hefur orðið niðurstaðan í Svíþjóð, Danmörku og Hollandi. Þar eru múslimar sem ógna lífi þeirra sem teikna t.d. mynd af Múhameð spámanni eða vilja gagnrýna kúgun kvenna. Þetta er auðvitað alveg óþolandi og við verðum að fara varlega í að bjóða slíkum hópum til landsins. Við eigum að sjálfsögðu ekki að láta stjórnast af kynþáttasjónarmiðum, og fólk sem kemur til landsins þarf ekki að verða Íslendingar, en það verður að fara eftir lögum og landssið. Þessi eðlilega krafa hefur ekki verið gerð í Evrópu, og það er nú að valda ótta við innflytjendur.“

Þáttastjórnandi spurði hvort þessi skipting kjósenda í eldri og yngri sé ekki einmitt það sem orkupakkadeilan snýst um og það sé nú að kristallast í Sjálfstæðisflokknum. Unga fólkið sé í meira mæli hlynnt orkupakkanum, á meðan þeir sem eldri eru séu í andstöðu við hann. Hannes telur að grundvöllur deilunnar sé vegna þess að Evrópusambandið (ESB) sé að reyna að víkka valdssvið sitt. Þróunin þar sé í þá átt að það hafi byrjað sem friðarbandalag og opinn markaður, en stefni nú í þá átt að verða lokað ríki.

Fjórfrelsið orðið að tilskipanadrífu

„ESB byrjaði í fjórfrelsinu, en er að breytast í tilskipanadrífu frá Brussel“. Þar sitji ólýðræðislega skipaðir menn, í ógagnsæju bákni sem erfitt sé að ná til, t.d. hafi reikningar ESB ekki verið endurskoðaðir í mörg ár. „ESB á að vera vítt og breitt, en ekki þröngt og djúpt“.

Á alþjóðavettvangi eigi Íslendingar ekki að hafa sig mikið í frammi, þar sem velgengni smáþjóða sé í öfugu hlutfalli við afskipti þeirra af alþjóðamálum, heldur einbeita sér að tvennu, varnarsamstarfi og fisksölu við hvern þann sem vill kaupa. Nefndi hann þar til sögunnar Rússland, Kína og Bandaríkin.