Hlaðvarp Viljans: Tækifæri Íslands eftir Kórónaveiruna, #1.
Þór Sigfússon stofnandi Íslenska sjávarklasans, segir í nýju viðtali við Björn Inga Hrafnsson í Hlaðvarpi Viljans, að þessa dagana fari fram magnaðasta tölvukennsla Íslandssögunnar, þar sem stofnanir, fyrirtæki og heimili séu að bregðast við samkomubanni og fjöldatakmörkunum með fjarvinnslu og tölvutækni.
Þetta geti skilað samfélaginu gríðarlega miklu til framtíðar og margir muni ekki hverfa aftur til fyrri hátta, enda þótt faraldurinn gangi yfir.
Í dag hóf göngu sína í Hlaðvarpinu viðtalsröð við forystufólk á ýmsum sviðum samfélagsins um þá jákvæðu þróun sem gæti orðið úr öllu mótlætinu tengt útbreiðslu veirunnar. Ástandið sé erfitt nú en tímabundið og mikilvægt sé að nýta tímann vel.
Þór segir að Ísland sé eitt stærsta matvælaland heims miðað við höfðatölu. Það sé hluti af okkar styrk og sýni hversu mikilvægt er fyrir okkur að skoða þau tækifæri sem bjóðast á þessu sviði á komandi árum.
Hann segir að þær breytingar sem við höfum orðið að tileinka okkur nú; netverslun, fjarvinna og fjarfundir, sé nokkuð sem við eigum að læra af og tileinka okkur strax.
Hann bendir að ýmislegt jákvætt sé þegar komið í ljós. Til dæmis heyri umferðartafir sögunni til, þar sem fleiri haldi sig heima. Kostnaður vegna umferðartafa teljist í hundruðum milljarða, kostnaður við breikkun stofnbrauta kringum 200 milljarða. „Þegar maður sér núna hvernig umferðin er, hversu ótrúlega fljótt framhaldsskóla- og háskólanemar hafa tileinkað sér fjarnám, blasir við að við eigum strax að leggja það til að skólarnir hefji í framtíðinni sína starfemi seinna en áður, til dæmis kl. 10 eða 11 til að dreifa álaginu á gatnakerfið. Kennslan færi fram með fjarnám þangað til. Þetta er einföld lausn, en myndi losa mikla fjármuni sem verja má með öðrum hætti,“ segir Þór.
Hann segir frumkvöðlastarfið á Íslandi þurfa á dugmiklu fólki að halda sem geti komið hlutunum í verk. Ekki sé endilega þörf á fleiri hugmyndum, þær séu margar nú þegar fyrir hendi, en fyrst og fremst sé þörf á mannskap til að hrinda þeim í framkvæmd.