Hljómsveit sem er sannkölluð þjóðargersemi

Enginn ætti að missa af heimildarmyndinni um þá dáðu hljómsveit, Mezzoforte, sem Ríkissjónvarpið sýnir þessa dagana í tveimur hlutum.

Maður hefur auðvitað alist upp við að hlusta á snillinganna í þessari hljómsveit, en þegar sagan er sögð í heild sinni frá fyrstu æfingunum í bílskúrnum yfir í það að vera alþjóðlegar stórstjörnur í Top of the Pops og á vinsælum músíkfestivölum um allan heim, áttar maður sig í raun á veru á því hvað Mezzoforte er mikil þjóðargersemi og þeir hæfileikaríku snillingar sem skipa bandið og hafa gert alla tíð.

Ekki síst er gaman að skyggnast á bak við tjöldin og rifja upp þátt plötuútgefandans ódrepandi, Steinars Bergs Ísleifssonar, sem sá eitthvað í þessum efnilegu piltum og lét drauminn rætast um að flytja tónlist þeirra út og reyna að „meika það.“ 

Sem tókst svo sannarlega.

Sjá fyrri hluta heimildarmyndinnar um Mezzoforte hér.

Þetta er heimildarmynd í tveimur hlutum um fyrstu íslensku hljómsveitina sem sló í gegn erlendis, en hún fagnaði 40 ára starfsafmæli árið 2017. Dagskrárgerð annaðist Ragnar Hansson.

Ríkissjónvarpið fær stórt prik fyrir þessa vönduðu dagskrárgerð. Til  er orðin ómetanleg heimild í íslenskri tónlistar- og menningarsögu.

Og meðal annarra orða: Eru strákarnir í Mezzoforte ekki örugglega allir búnir að fá Fálkaorðuna?

.