Mér leið eins og ég væri orðinn átján aftur á frumsýningu Leynilöggunnar í gær, nýju íslensku grín/hasarmyndarinnar eftir landsliðsmarkvörðinn Hannes Þór Halldórsson. Sonur minn, sem er er að verða átján, var enda með í för, og saman hlógum við og hlógum að því sem fyrir augu bar á hvíta tjaldinu og skemmtum okkur konunglega, eins og aðrir viðstaddir.
Leynilöggan er einshvers konar óður til klassískra hasarmynda níunda og tíunda áratugs síðustu aldar; mynda sem maður horfði á aftur og aftur og kunni orðrétt samtölin úr. Die Hard, Naked Gun, Beverly Hills Cop, Leathal Weapon og Bad boys koma upp í hugann og fyrir kvikmyndaáhugamenn er veisla að pæla í einbeittri paródíunni og öllum klisjunum sem Hannes Þór og félagar bera á borð algjörlega án þess að skammast sín. Og hafa gaman að.
Auðvitað heldur handritið ekki, ef rökhugsun er í fyrsta sæti, en hvað með það? Hver hefur látið það stoppa sig í gegnum tíðina frá því að gleyma sér yfir James Bond eða sambærilegum kvikmyndum? Hér koma brandarar á færibandi; illmennið er svo mikill bad guy, að hann talar ensku þótt hann sé Íslendingur og það eitt og sér er hrikalega fyndið og sýnir hversu hasarmyndaklisjan leikur í höndunum á leikstjóranum.
Leikaravalið er frábært og það skín í gegn að það hefur verið mikið fjör á tökustað. Af því að persónusköpunin er meðvitað ýkt og klisjukennd, ná vanir leikarar að blómstra í hlutverkum sínum og líka þeir sem minni reynslu hafa. Inn á milli eru svo milljón lókal brandarar sem aðeins íslenskir áhorfendur skilja og hlæja að, t.d. þegar löggan Bússi (sem frábærlega er leikinn af útvarpsmanninum Auðunni Blöndal) skiptir af FM 95,7 í útvarpinu sínu og tilkynnir að í þessum bíl sé venjulega bara hlustað á X-ið.
Björn Hlynur Haraldsson, Sverrir Þór Sverrisson (Sveppi), Steinþór Steinþórsson (Steindi) og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir eiga stórleik í Leynilöggunni og njóta greinilega hverrar mínútu. Egill Einarsson er fantaflottur sem Garðabæjarlöggan og sýnir á sér óvæntar hliðar sem afvopna eiginlega þá sem komu fyrirfram með fordóma um hrútastemningu og karlrembu og sömuleiðis koma Vivien Ólafsdóttir, kyntröllið Rúrik Gíslason, söngkonan Bríet og söngvarinn Jón Jónsson mjög sterk inn í flottum aukahlutverkum.
Leikstjórinn sagði í skemmtilegu ávarpi fyrir mynd að Leynilöggan væri ódýr mynd, jafnvel á íslenskan mælikvarða. „Þetta er ekki low-budget mynd, þetta er no-budget mynd,“ sagði hann kankvís og benti á að ef þetta klikkaði gæti hann alltaf farið aftur í fótboltann í Val, þar sem hann ætti fast sæti. Með því sló hann taktinn fyrir þann húmor á eigin kostnað sem var framundan, því Valsmenn eru komnir með nýjan markmann og alls óvíst með framtíð landsliðskempunnar í fótboltanum.
Hannes Þór þarf hins vegar nákvæmlega engar áhyggjur að hafa. Ég spái því að landsmenn muni flykkjast á þessa mynd. Hollywood verður heldur ekki lengi að þefa uppi þá hæfileika sem þarna búa og fá honum alvöru fjármagn til að gera stórmyndir á næstu árum. Þið lásuð það fyrst hér. Leynilöggan er frábær afþreying, reynir aldrei að vera eitthvað meira en hún er, og fyrir vikið skemmta sér allir konunglega.
Björn Ingi er ritstjóri Viljans.