„Hvað er Frosti að vilja upp á dekk?: „Algjör þöggun meðal þingmanna um þessi mál“

„Ég hefði miklu frekar viljað að það væru einhverjir þingmenn í þessari umræðu. Sjálfur er ég uppgjafa þingmaður sem hygg ekki á frekari opinber embætti. En það er í gangi algjör þöggun meðal þingmanna um þessi mál. Engin málefnaleg umræða um þær leiðir sem verið er að fara,“ segir Frosti Sigurjónsson rekstrarhagfræðingur og fv. þingmaður Framsóknarflokksins, en hann er gestur Björns Inga Hrafnssonar í Hlaðvarpi Viljans.

Frosti hefur verið áberandi í umræðunni hér á landi um viðbrögð við Kórónuveirufaraldrinum og sætt heilmikilli gagnrýni fyrir það að skipta sér af hlutum sem hann hafi ekki vit á. Hann skrifaði á dögunum opið bréf til forsætisráðherra og nú í vikunni opið bréf til Sóttvarnaráðs ásamt öðrum fyrrverandi þingmanni, Ólínu Þorvarðardóttur, þingmanni Samfylkingarinnar.

Í viðtalinu er komið víða við, Frosti bendir á að umræðan um viðeigandi viðbrögð sé allt önnur og frjórri í öðrum löndum, þar sem sérfræðingum sé ekki látið eftir sviðið þegar teknar eru stórar ákvarðanir sem varða samfélagið allt til langrar framtíðar.

Hann ræðir skynsemi þess að ganga með taugrímur á almannafæri, sem sífellt fleiri þjóðir mæli nú með og segir frá tækifæri sem íslenskum stjórnvöldum bauðst fyrir tíu dögum, að kaupa milljónir gríma til notkunar á heilbrigðisstofnunum. Það hafi ekki verið nýtt og grímurnar farið annað.

Frosti bendir á frábæran árangur frænda okkar Færeyinga í baráttu gegn veirunni; þar hafi eyjarskeggjar viðhaft mun harðari aðgerðir en við Íslendingar og árangurinn ekki látið á sér standa.

„Ómissandi fólk í lýðræðisþjóðfélagi“

Ögmundur Jónasson, fv. heilbrigðisráðherra, fjallar á heimasíðu sinni í gær um umræðuna hér á landi um Kórónuveiruna. Gagnrýnir hann sömuleiðis þöggunina gagnvart málefnalegri umræðu og lýkur lofsorði á Frosta og Ólínu fyrir að hafa tekið slaginn og sett fram hugmyndir sínar og vangaveltur. Kallar Ögmundur þau „ómissandi fólk í lýðræðisþjóðfélagi.“

Ögmundur segir:

„Ég hef undanfarna daga ítrekað tekið þátt í skoðanakönnunum um viðbrögð íslenskra heilbrigðisyfirvalda við kórónaveirunni, hvort ég sé ánægður og sáttur. Ég hef svarað játandi og meira að segja hvergi sparað lýsingarorðin og myndi gera enn.

Ögmundur Jónasson fv. ráðherra og fv. þingmaður Vinstri grænna.

Ég reyni auk þess að fylgja til hins ítrasta ráðleggingum og tilmælum þessara aðila. Ég er með öðrum orðum eins jákvæður í þessum skilningi og verða má. Vona ég innilega að samstarfsvilji og samstaða þjóðarinnar eigi eftir að skila okkur árangri sem fyrst. Ég er einnig þakklátur því fólki sem er að láta gott af sér leiða fyrir okkar hönd.  

Ef ég nú væri spurður hvort ég bæri traust til tveggja fyrrverandi alþingismanna sem véfengt hafa aðferðafræði íslenskra stjórnvalda, þeirra Frosta Sigurjónssonar og Ólínu Þorvarðardóttur, þá myndi ég tvímælalaust einnig svara játandi og það meira að segja afdráttarlaust. Samstaða og gagnrýnin hugsun fara nefnilega ágætlega saman, þurfa meira að segja að fara saman. Þöggun kann aldrei góðri lukku að stýra.“