„Þetta er móðir allra krísa“ segir Bjarnheiður Hallsdóttir formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. „Staðan er grafalvarleg og bregðast verður við strax af hálfu stjórnvalda, ef ekki á að fara mjög illa,“ segir Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri samtakanna.
Þau ræða við Björn Inga Hrafnsson í Hlaðvarpi Viljans um þá ótrúlegu stöðu sem upp er komin í kórónuveirufaraldrinum og með lokun landsins og hruni ferðamennsku í heiminum, amk. tímabundið.
Bjarnheiður segist hafa starfað við ferðaþjónustu í um þrjátíu ár, en allir erfiðleikar sem hingað til hafi komið upp í greininni hér á landi blikni í samanburði við þá stöðu sem komin er upp nú. „Þetta er hinn fullkomni stormur ,“ segir hún og bendir á að mikill meirihluti fyrirtækja í íslenskri ferðaþónustu horfi nú upp á algjört tekjuhrun.
Jóhannes Þór kveðst binda vonir við boðaðar framhaldsaðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum, enda sé ljóst að mjög illa muni fara ef ekki verði gripið rösklega inn í.
Algjört tekjuleysi þýði að mjög erfitt verði að kljúfa launagreiðslur um næstu mánaðarmót, hvað þá meira og flest fyrirtæki ráði ekki að óbreyttu við að standa starfsfólki skil á launum á uppsagnarfresti þegar koma muni til uppsagna.
Hann segist tala viljandi fremur um þegar en ef, því ljóst sé að ferðaþjónustan geti ekki farið aftur af stað af fullum krafti fyrr en mögulega á næsta ári og ekkert fyrirtæki geti haldið óbreyttum starfsmannafjölda við slíkar aðstæður.
Viðtalið við Jóhannes Þór og Bjarnheiði er jafnframt aðgengilegt á Hlaðvarpi Viljans á helstu hlaðvarpsveitum, svo sem Apple Podcast og Spotify.