Íslenskir bíókóngar takast á

Vart er hægt að finna betra dæmi um smæð íslensks samfélags, eða þá einkanlega einstakra geira innan þess, en hina stórskemmtilegu deilu sem sprottin er upp um hvort íslenska kvikmyndin Leynilöggan hafi sett aðsóknarmet á frumsýningarhelgi sinni á dögunum.

Aðsókn er talin eins í öllum löndum heims, miðað er einfaldlega við tekjur af aðsókn á hverjum tíma og ef nýtt met er sett er það vegna þess að fleiri krónur hafi komið í kassann en hjá fyrri methafa. Flóknara er það nú ekki.

Í tilkynningu frá Sambíóunum vegna þessara tímamóta, sagði meðal annars:

Íslenska grín- og hasarmyndin Leynilögga setti nýtt met fyrir Íslenskar myndir á frumsýningarhelgi myndarinnar. Myndin halaði inn 15.941.412 kr. í miðasölu og sló þar með út 15 ára gamalt met Mýrarinnar sem opnaði með 15.807.800 kr árið 2006. Þess má geta að myndin var frumsýnd á miðvikudegi og höfðu miðasölutekjur myndarinnar náð 23,6 milljónum þegar helginni lauk. Sannarlega má segja að ný kynslóð kvikmyndagerðarmanna sé með frumsýningu Leynilöggu að stimpla sig hressilega inn á markaðinn. Óskum öllum aðstandendum til hamingju með árangurinn.“

Sambíóin tóku aukheldur fram, að líkt og tíðkist í öðrum löndum, séu það ákveðin fyrirtæki eða samtök sem halda utan um tekjur kvikmynda viðkomandi landa og gefa út topp list á hverjum mánudegi. Á Íslandi er það Félag Rétthafa í Sjónvarps- og Kvikmyndaiðnaði (Frísk) sem halda utan um tekjur mynda sem sýndar eru á Íslandi og gefa út topplista bíómynda eftir hverja helgi.

Þetta var auðvitað stórfrétt, ekki síst í því ljósi er um að ræða frumraun leikstjórans og markvarðarins Hannesar Þórs Halldórssonar á hvíta tjaldinu. Erlendir bransamiðlar sögðu frá tíðindunum og það varð ekki öllum öðrum í íslenskum kvikmyndaiðnaði gleðiefni.

Baltasar Kormákur, sem maður hefði haldið að væri upptekinn einhvers staðar úti í heimi í risastórum Hollywood-verkefnum, brást heldur undarlega við tíðindunum. Hann taldi af einhverjum ástæðum að sér vegið og fjölmiðlar fóru að fá símtöl um að þetta nýja met væri nú eiginlega ekkert met, því það hefði gleymst að uppreikna tekjur af miðasölu til verðlags í dag og taka íslensku verðbólguna inn í þetta. Í samtali við DV sagði Baltasar Kormákur beinum orðum, að síðustu vikuna hefði „verið haldið þeirri lygi á lofti að Leynilögga hafi slegið miðasölumet Mýrarinnar. Sannleikurinn er að það er fjarri lagi. Mýrinn fékk um 14000 manns en Leynilöggan 8500 fyrstu helgina. Ef miðasölutekjurnar eru uppreiknaðar þá er Mýrin nánast með tvöfalt hærri tekjur. Ástæðan fyrir þessum miskilningi er mjög annarleg framsetning. Hún er gerð með að leggja saman tölur frá 2006 og 2021 og reikna ekki núvirði og/eða telja ekki hausa. Þetta hefur aldrei tíðkast þar sem verðbólga er há hér á landi. Þannig að samkvæmt þessu er það verðbólgan sem er sigurvegari. Ef menn vilja hinsvegar bera saman hluti er best að bera saman epli og epli,“ sagði hann, en tók þó fram að hann samgleddist Hannesi Þór með árangurinn. „Árangur Leynilöggu er flottur og óska ég þeim alls hins besta en rétt skal vera rétt. Það má vera að Hannes hafi varið frá Messi en þessum bolta náði hann ekki.“

Á bransavefnum Klapptré, þar sem fjallað er um íslenskar kvikmyndir og sjónvarpsefni, er aðsóknarmetið jafnframt dregið í efa. Vefurinn segist hafa fengið tilkynninguna, eins og aðrir miðlar, en fullyrðingar í henni séu ansi hæpnar. „Sé horft á tölurnar sem slíkar eru þær réttar. Gallinn er hinsvegar sá að tekjur myndanna sem Leynilögga er borin saman við, eru ekki núvirtar og að auki bornar saman tekjur opnunarhelgar við tekjur opnunarhelgar ásamt forsýningum. Í verðbólgulandinu Íslandi er samanburður án núvirðingar auðvitað mjög villandi, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Núvirtar 15,8 milljóna króna frumsýningarhelgartekjur Mýrinnar frá 2006 eru um helmingi hærri upphæð í dag,“ segir ennfremur í umfjöllun vefsins um málið. Þar kemur jafnframt fram, að opnunarhelgi Mýrinnar sé enn sú langstærsta í bæði tekjum og aðsókn talið.

Þessu vill annar íslenskur bíókóngur ekki una, enda staðreynd að hvergi er reynt að uppreikna tekjur af miðasölu til núvirts verðlags þegar fjallað er um aðsóknarmet. Hvergi annars staðar en á Íslandi, þar sem Baltasar Kormákur vill að einhverjar séríslenskar reglur gildi. Þess vegna skarst Árni Samúelsson í Sambíóunum í leikinn á fésbókinni um helgina: „Sumir ergilegir menn sem gerðu myndina Mýrina fyrir mörgum árum, telja enn að Mýrin sé stærri á frumsýningarhelgi en Leynilöggan. Hvergi er þetta reiknað út svona eins og Mýrarmenn telja. Ef það væri svo væri myndin GONE WITH THE WIND ennþá á toppnum eftir 75 ár.Merkilegt að geta ekki farið eftir því sem er notað í dag og hefur verið notað í mörg ár. ÞAÐ ÞARF ÞÁ EINHVER að LÁTA STUDÍÓIN Í HOLLYWOOD VITA AÐ ÞAU HAFI GERT ÞETTA VITLAUST Í ÖLL ÞESSI ÁR…..“

Svo mörg voru þau orð. Framleiðslufyrirtækið Pegasus, sem gerði Leynilögguna, veit hins vegar sem er, að Ísland er lítið land, hagsmunirnir miklir í hinum örsmáa íslenska kvikmyndabransa og að það kemur dagur eftir þennan dag. Í anda Sameinuðu þjóðanna setti Pegasus þau skilaboð frá sér á fésbókarsíðu fyrirtækisins, þar sem vantaði bara texta um að öll dýrin í skóginum ættu að vera vinir, að allskonar íslenskar kvikmyndir eigi toppsætið hvað aðsókn varðar, bara eftir því hvaða mælikvarði sé notaður. „Meðal annars Leynilögga, Mýrin, Með allt á hreinu, Djöflaeyjan og eflaust fleiri. Áfram íslenskt bíó ?

Þannig er nú það.