Kristrún um hælisleitendur: Ekki hægt að reka velferðarríki án lokaðra landamæra

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur blandað sér í umræður um hælisleitendur með því að taka undir þau sjónarmið, að núgildandi hælisleitendakerfi sé bæði „ósjálfbært og ósanngjarnt“ og nauðsynlegt sé að eiga „hreinskiptið samtal“ um það hvernig því skuli háttað til lengri tíma. Hún segir að horfa þurfi til þess, að þeir sem að komast til Íslands, séu líklega ekki endilega það fólk sem að er í sárastri neyð og nefnir í því samhengi að mögulega sé betra að samþykkja fleiri kvótaflóttamenn. Hún hefur skilning á áformum Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra um lokuð búsetuúrræði og telur að það að virða ekki úrskurði þurfi að sæta afleiðingum. Hún segir að út frá jafnaðarsjónarmiðinu sé nauðsynlegt að verja kerfin og að það sé ekki hægt að reka velferðarríki án lokaðra kerfa og landamæra. Því sé ekki raunhæft að Ísland skeri sig úr er varðar reglur á öðrum Norðurlöndum.

Afstaða Kristrúnar í hælisleitendamálum, sem sætir nokkrum tíðindum, var rædd í nýjum þætti hlaðvarpsins Ein Pæling sem Þórarinn Hjartarson stýrir.

Segir ekki hægt að hafa opin landamæri samhliða því að reka velferðarkerfi

Kristrún segir ekki ganga fyrir Ísland að hafa almennt aðrar reglur í þessum efnum en Norðurlöndin.

„Ég er sammála því sjónarmiði, að ef við erum að tala um hælisleitendakerfi, þá á Ísland ekkert að skera sig úr frá Norðurlöndum. Ég meina við verðum auðvitað bara að ganga í takt við aðrar þjóðir hvað það varðar. Og það þýðir ekki að við séum ekki með mannúð að sjónarmiði. En við þurfum að vera með pragmatík og raunsæi að sjónarmiði. Því okkur ber skylda að passa upp á kerfin okkar líka.“

Hefur skilning á áformum Guðrúnar Hafsteinsdóttur um lokaðar búðir

Hún kveðst hafa skilning á áformum dómsmálaráðherra um lokuð búsetuúrræði:

„Ég skil þetta. Mér finnst ekki gott að það sé verið að vista fólk á Hólmsheiði [í gæsluvarðhaldsfangelsi]. Vegna þess að við erum ekki með úrræði fyrir fólk. Það er það sem að við höfum verið að gera í dag. Það er verið að vista fólk í fangelsum. Þannig að í því samhengi þarf að grípa til úrræða. Án þess að hafa kynnt mér þetta í smáatriðum, því að þetta á náttúrlega eftir að fá þinglega meðferð. Mín fyrstu viðbrögð eru þau. Og mér finnst ekkert óeðlilegt og bara í rauninni eðlilegt að það hafi einhver áhrif á þig í kerfinu ef að þú virðir ekki niðurstöðu í útkomu gagnvart rétti þínum að dvelja í landinu. Auðvitað á það að hafa einhverjar afleiðingar. Því að ef við tölum um sanngirni. Það er fullt af fólki sem sækir hér um og fær nei og fer bara. Svo er líka fullt af fólki sem að sækir um og ætti að fá já. En kerfið nær ekki að vinna úr því að það eru margir aðrir í kerfinu. Þannig við þurfum líka að nálgast þetta þannig.

Í tilviki staks einstaklings sem að fékk neitun og fólki finnst það ósanngjarnt þá er það auðvitað hræðilegt. En það eru aðrir annarstaðar í línunni skilurðu og það ber að virða þá niðurstöðu. Þannig að í þessum fáu tilvikum þar sem þetta kemur upp og fólk virðir ekki niðurstöðu þá finnst mér ekkert óeðlilegt að því fylgi afleiðingar. Ég set hins vegar stórt spurningarmerki að það eigi að vista börn í svona úrræðum. Mér finnst það ekki við neinar kringumstæður ásættanlegt. Því að börn taka auðvitað ekki ákvörðun um það hverskonar vegferð foreldrar þeirra fara með sig í. Og hvort foreldrar þeirra virði úrskurði og hvað sem það svo sem er.“

Telur innbyggða ósanngirni í því að þeir sem komist hingað fái hæli

Kristrún telur núgildandi fyrirkomulag að ýmsu leyti ósanngjarnt. „Því að það að koma hingað og sækja um vernd krefst þess að þú hafir komist hingað. Og það vita allir að, eins ótrúlega og það kann að hljóma, þá ertu í sterkari stöðu en margir aðrir ef þú kemur þér alla leið til Íslands. Og á ákvörðun að byggjast á því hvort að þú komist hingað eða ekki eða eigum við að taka á móti fleiri kvótaflóttamönnum til dæmis? Það er ómannúðlegt líka því að ef að fólk ætlar að leggja það á sig að komast hingað þá er það oft að leggja á sig alveg hrottalega vegferð. Margir látast á leiðinni. Við getum ekki sagt að þetta sé sjálfbær leið á því að sinna flóttafólki ef við ætlum að taka á móti yfir höfuð. Og svo hef ég líka sagt að þetta er ósjálfbært því að við erum illa undir þetta búin. Og við virðumst ekki hafa stjórn á því hvernig við vinnum þessar umsóknir og hvernig við tökum á móti fólki,“ segir hún.

Sjálfstæðismenn geta ekki kennt öðrum um

Hún segir samt mikilvægt að muna að það sé Sjálfstæðislfokkurinn sem að beri ábyrgð á núverandi kerfi. Og því geti þau ekki kennt öðrum um það hvernig er í pottinn búið. Aðspurð um það hvort að hún telji ósjálfbærni kerfisins byggjast á fjölda fólks sem hingað leitar svarar Kristrún:

„Það sem hefur kannski verið erfitt að átta sig á er að það hefur verið ákveðið hringl með reglurnar og fólk hefur ekki treyst sér til þess að standa í lappirnar. Það hafa verið gerðar breytingar og fólk virðist ekki átta sig á því hvernig löggjöfin virkar. Það er verið að veita leyfin en svo vill fólk ekki klára það ferli. Og ég held að það skipti rosalega miklu máli að fólk upplifi og skilji að stjórnmálamenn viti að það þurfi að hafa stjórn á landamærunum okkar. Ég meina ef við tölum bara um jafnaðarstefnuna í grunninn. Hún byggir á því að þú ert með skatta, þú ert með samfélagslegt traust, og þú ert með samtryggingu. Auðvitað byggir það á því að þú hafir landamæri. Eðli málsins samkvæmt. Ef þú ætlar að reka velferðarsamfélag þá þarftu að vera með lokað kerfi að því leitinu til. Það þýðir ekki að þú sért ekki með svigrúm til að taka á móti fólki en þú verður að gera það eftir ákveðnu kerfi. Og eins og ég segi, við hljótum, sem jafnaðarmannaflokkur, að vilja halda í ákveðin gildi í okkar samfélagi.“

Hún kveðst jafnframt taka undir þau sjónarmið ráðherra Sjálfstæðisflokksins að svigrúm þurfi að vera til að aðstoða sem virkilega er að sækja vernd útaf skelfilegum aðstæðum. „Að fólk ætti ekki að vera að misnota kerfið, fólk ætti ekki að vera að koma hingað sem efnahagslegir flóttamenn. Ég er bara 100% sammála þessu, 100% sammála þessu.“

Sammála Mette Frederiksen þó svo að önnur staða sé í Danmörku heldur en á Íslandi

Aðspurð um það hvort að hún sé sammála Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, og hvort að Ísland þurfi að grípa til álíka ráðstafana og Danir hafa gert, svarar Kristrún: „Sko, já og nei. Aðstæður í Danmörku voru náttúrlega aðrar en þær eru uppi hérna. Þetta teygir sig miklu lengra aftur í Danmörku í móttöku flóttafólks frá ákveðnum löndum. Þannig ég held að við þurfum að taka mið af ákveðnum aðstæðum. Ég meina þessi umræða hefur líka verið í Noregi og Svíþjóð. Og ég held að margir séu að horfast í augu við það að í sumum tilvikum hafi bara skort hreinskiptið samtal um raunverulega hvað væri í gangi og þróunina. Og ég held, eins og ég sagði áðan, ég held að við þurfum að taka hælisleitendakerfið til gagngerrar skoðunar þar sem að við reynum að finna línu sem að er sanngjörn og mannúðleg og sjálfbærari til lengri tíma.“

Til þess að koma í veg fyrir að hér verði gerð sömu mistökin segir Kristrún: „Ég held líka að við þurfum líka að eiga raunsætt samtal um það hvernig við horfum á móttöku, ekki bara hælisleitenda, heldur innflytjenda til landsins. Ég meina, það hefur orðið gríðarleg breyting á íslensku samfélagi.“

„Við virðumst ekki hafa næga stjórn á því hvernig við getum bæði unnið þessar umsóknir og hvernig við tökum á móti þessu fólki. Og það hlýtur að vera, út frá jafnaðarsjónarmiði, ef að maður vill að þetta sé jafnt og vill að þetta sé sanngjarnt,“ bætir hún við.

Viðtalið við Kristrúnu Frostadóttur í heild er að finna hér.