LOKSINS! LOKSINS!

LOKSINS! LOKSINS! Þannig voru hin frægu upphafsorð í ritdómi Kristjáns Albertssonar í tímaritinu Vöku um nýútkomna skáldsögu Halldórs Kiljans Laxness, Vefarann mikla frá Kasmír. Hið sama má segja nú um Pabbahelgar, sannkallað stórvirki Nönnu Kristínar Magnúsdóttur, sem sýnt er í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöldum þessa dagana og hefur algjörlega slegið í gegn meðal landsmanna.

Af hverju að líkja sjónvarpsþáttaröð við bókmenntaafrek?, gæti einhver spurt. Og svarið er: Pabbahelgar er íslenskt sjónvarp af bestu gerð um raunveruleikann eins og þekkjum hann flest. Við höfum áður sýnt að við kunnum ýmislegt fyrir okkur í glæpaþáttum, en hér er það napur veruleikinn sem er sögusviðið; holdið er veikt, koma þörf börnum í skóla og leikskóla, skilja við makann, skrá sig á Tinder og sinna Facebook og vera á markaðnum.

LOKSINS! LOKSINS! á við hér vegna þess að hingað til hefur sá ljóður verið á íslenskum grínþáttum í sjónvarpi, að samtölin eru oft tilgerðarleg og virka ekki ekta. Nanna Kristín hefur fundið svar við því. Samtöl hennar og söguþráður er svo ekta, að manni finnst nánast eins og myndavélum hafi verið komið fyrir í íbúð vestur í bæ og áhorfendum gefist í reynd kostur á að horfa á alvöru fólk af holdi og blóði í rauntíma.

Það er ekki lítið afrek.

Vaktasería Ragnars Bragasonar og Jóns Gnarr kemur helst í hugann þegar finna á þætti sem standast samanburð við ískalda satíru Nönnu Kristínar og er þá ekki leiðum að líkjast. Má fastlega búast við að frasar úr Pabbahelgum festist í máli landsmanna um ókomna tíð, rétt eins og gerðist þegar þeir félagar Georg Bjarnfreðarson og Ólafur Ragnar voru upp á sitt besta.

Brilljansinn við persónusköpun Nönnu Kristínar felst líka í hinum ófullkomnu og stórgölluðu aðalpersónum. Þær eru nefnilega breyskar eins og áhorfendurnir heima í stofu. Að ekki sé minnst á kaldhæðnina sem felst í því að aðalsöguhetjan sé hjónabandsráðgjafi, en sjálf með allt niðrum sig í einkalífinu.

Það er ekki hægt að mæla nógsamlega með Pabbahelgum. Þær eru nú þegar orðið það sem kallast instant klassík. Bravó fyrir Nönnu Kristínu og hennar fólki!