Hin ótrúlega sigurganga Hildar Guðnadóttur kvikmyndatónskálds náði hámarki í nótt er hún varð fyrst Íslendinga til að hljóta hin eftirsóttu Óskarsverðlaun fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Jókernum.
Í þakkarávarpi sínu ávarpaði Hildur konur og stúlkur um allan heim og hvatti þær til að tjá sig og láta rödd sína heyrast.
Afrek Hildar á árinu er einstakt, því hún samdi tónlist fyrir eina umtöluðustu kvikmynd ársins (The Joker) og einnig sjónvarpsþætti (Chernobyl). Fyrir vikið hefur hún nú á skömmum tíma hlotið allar viðurkenningar sem kvikmyndatónskáld hefur hlotið, til að mynda Emmy-verðlaun, Grammy-verðlaun, BAFTA-verðlaunin, Golden Globe og nú sjálfan Óskarinn.
Velgengni Hildar undanfarið hefur verið með hreinum ólíkindum og verður í menningarsögulegu tilliti hér á landi aðeins jafnað við Nóbelsverðlaunin sem Halldór Laxness fékk í Stokkhólmi árið 1955.