Morse lögregluforingi þá og nú — sjónvarp eins og það gerist best

Ég er ákaflega mikill aðdáandi breskra sakamálasagna, hvort sem er í kvikmyndum/sjónvarpi eða bókum. Og ein eftirlætis sögupersóna mín er Morse lögregluforingi í Oxford, sem byggir á bókum rithöfundarins Col­ins Dexter, sem bjó og starfaði alla sína tíð í menntaborginni miklu og skrifaði glæpasögurnar um Inspector Morse á árunum 1975 til 1999.

Í sjónvarpsþátt­um ITV, sem nutu gríðarlegra vinsælda um allan heim fór leik­ar­inn John heitinn Thaw með hlut­verk Mor­se. Hann leysti hverja gátuna á fætur annarri ásamt hinum trygga aðstoðarmanni sínum Lewis (sem fékk svo sína eigin þáttaröð að Thaw gengnum, sem einnig naut mikilla vinsælda).

Tónlistin í upphafslaginu um Morse er eftir tónskáldið Barrington Pheloung og byggir á Morse-kóðanum — „M.O.R.S.E.“, — allt frá upphafstónunum til loka verksins.

Fyrstu glæpa­sög­una sína um Mor­se sem nefn­ist Last Bus to Wood­stock skrifaði Dexter árið 1975, en þá síðustu skrifaði hann 24 árum síðar. Í henni deyr Mor­se.

Blandan, sem er rauði þráðurinn í bókunum og þáttunum um Morse, er klassísk tónlist, samfélag lærðra og leikra, ölkollur og viskí og svo hinn veiklyndi lögregluforingi sem hefur yndi af krossgátum, er töluvert upp á kvenhöndina kominn en höndlar samt aldrei hamingjuna — er heiðarleikinn uppmálaður þegar kemur að bókstaf laganna og prinsippunum sem honum fylgja.

Og þótt Morse hafi látið lífið í síðustu bókinni, dóu breskir sjónvarpsframleiðendur ekki ráðalausir. Kynntur var til sögunnar nýr myndaflokkur um Morse á yngri árum — Endeavour, sem vísar til fornafnsins sem hann vill helst ekki nota. Þar tekur hann sem ungur maður við að ráða strembnar morðgátur, kynnist mönnum sem hann á eftir að starfa með næstu áratugina og þróar með sér öll sín eftirtektarverðu skapgerðareinkenni sem áhorfendur læra smám saman að elska. 

Lögregluforinginn Lewis, með Hathaway samstarfsmanni sínum.

Shaun Evans hefur algjörlega slegið í gegn sem hinn ungi Morse og ekki síður Roger Allam í hlutverki yfirmanns hans, Freds Thursday og Sean Rigby sem lögreglumaðurinn Strange.

(Íslenski leikstjórinn Börkur Sigþórsson leikstýrði einum þætti um hinn unga Morse fyrir tveimur árum.)

Undanfarin sunnudagskvöld hefur ITV sýnt nýjustu þáttaröðina um hinn unga Morse — það er sú sjötta í röðinni — og að þessu sinni er um að ræða fjórar sögur, sem hver og ein er um 90 mínútur að lengd. Ég hef notið hverrar mínútu að venju — rétt eins og milljónir breskra sjónvarpsáhorfenda.

Þetta er úrvals efni sem óhætt er að mæla með. Ég geri ráð fyrir að RÚV muni sýna þessa nýjustu þáttaröð fljótlega, enda sjónvarp eins og það gerist best. ITV hefur nú tilkynnt að þeir félagar muni snúa aftur í seríu nr. 7 og því fagna vitaskuld allir góðir menn.

Ps. Í sjónvarpi Vodafone og í Itunes safninu á Apple TV er hægt að finna alla gömlu þættina um Morse, einnig allar þáttaraðirnar um Lewis og loks Endeavour þættina eins og þeir leggja sig. Þeir sem ekki hafa séð þetta augnakonfekt, eiga gott í vændum. Sjálfur horfi ég reglulega á þetta aftur og aftur og þekki fleiri sem það gera. Betri meðmæli með sjónvarpi er ekki hægt að hugsa sér.