Mun hatrið sigra?

„Það athyglisverðasta við Hatrið mun sigra með Hatari er að það er alveg sama hvar maður ber niður í erlendu júrónördamiðlunum, eða á samfélagsmiðlum, viðbrögðin eru alveg svakalega jákvæð,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar og þekktur Júróvisjónsérfræðingur.

„Fólk bara elskar þetta lag og performansið og vídeóið og allt. Jafnvel á kommentakerfi Youtube, sem alla jafna er ein dýpsta ruslakista internetsins, prumpa menn glimmeri. Það er mjöööööög áhugavert mál,“ bætir Jóhannes við á fésbókinni.

Jóhannes Þór var áður aðstoðarmaður forsætisráðherra sem kunnugt er og annar fv. aðstoðarmaður ráðherra, Karl Pétur Jónsson, sem nú er bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi, tekur í sama streng:

„Þetta er náttúrulega geggjað lag og dásamlegt konsept. Besta mómentið til þessa var viðtalið við þau þar sem Matthías sagði: „Við erum að taka þátt í þessari keppni til að sigra kapítalismann. Svo vonandi seljum við fleiri boli og diska líka.“