Norsku þættirnir sem allir eru að tala um

Fjórmenningarnir í norsku sjónvarpsþáttunum Exit eru siðlausir og hrokafullir með afbrigðum. / Skjáskot: RÚV.

Umtalaðasta sjónvarpsefnið á Íslandi í dag er ekki sýnt í hefðbundinni dagskrá sjónvarpsstöðvanna, heldur er það að finna á sarpi RÚV. Eru það norsku sjónvarpsþættirnir Exit (sem eru stranglega bannaðir innan sextán ára) og fjalla um fjóra unga viðskiptajöfra sem lifa hátt, djamma og djúsa (og meira en það) og sýna öll einkenni fullkominnar siðblindu í samskiptum við aðra.

Þættirnir byggja á raunverulegum atburðum og eiga sér fyrirmyndir í norsku viðskiptalífi. Árið 2017 var saga fjórmenninganna sögð og úr varð handritið að þessum þáttum sem í kjölfarið hafa gert allt vitlaust í hinum siðprúða Noregi og hjá NRK, norska ríkisútvarpinu.

Og nú er það sama að gerast hér á Íslandi.

Fram kom í vikunni, að forsvarsmenn Sjónvarps Símans hafi kvartað til Fjölmiðlanefndar yfir því að þættirnir séu öllum aðgengilegir án aðgangstakmarkana á vef og appi RÚV. — Því hefur reyndar verið breytt nú.

Einn þeirra sem uppgötvaði þá fyrst hina umtöluðu þætti, er hæstaréttarlögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson. Hann skrifar á fésbókina:

„Þökk sé hinum siðprúðu stjórnendum Símans fyrir að vekja athygli mína á norsku þáttaröðinn Exit. Án kvörtunar Símans vegna óhefts aðgangs að þáttunum á efnisveitu RÚV hefði ég misst af þeim.

Sigurður G. Guðjónsson lögmaður.

Þættirnir eru byggðir á sögu fjögurra nýríkra Norðmanna sem lifðu hratt og hátt fyrir nokkrum árum; flott hús, stundum fleiri en eitt, floti glæsi bifreiða, botox eiginkonur að kafna í merkjavöru, vansæl börn alin upp af asískum au-pair, eiturlyf, áfengi og villtar veislur með fjölda fylgdarkvenna.

Allt er þetta þekktir fylgifiskar nýríkidæmis þar sem grætt er á daginn, en hvað sem er grillað í eiginlegri og óeiginlegri merkingu til morguns. Sambærilega þætti má án efa gera um marga aðra nýríka,“ segir hann og bætir við: „Síminn ætti að fagna aðgengi að þáttunum norsku og segja ,,Svona á sjónvarp að vera.”“

Hægt er að horfa á EXIT þættina með því að smella hér.