Þjóðin sat límd yfir Ófærð 2 í kvöld, sem önnur sunnudagskvöld, og óhætt er að segja að tekið sé að hitna verulega í kolunum.
Samkvæmt upplýsingum frá RÚV er önnur þáttaröð Ófærðar að slá áhorfsmet og má búast við enn hærri áhorfstölum eftir því sem fléttunni vindur fram og fjölgar í kirkjugarðinum á Siglufirði, eins og þar stendur.
Eitt af því sem margir hafa kvartað yfir á samfélagsmiðlum er að erfitt sé að halda þræði þegar kemur að persónum og leikendum í þáttunum. Hver sé hvers, hverjir eru hvað og þar fram eftir götunum.
Í mörgum þekktum bókmenntaverkum er á fyrstu blaðsíðunum yfirlitsmynd yfir helstu sögupersónur og tengsl þeirra á milli og nú hefur einhver góðhjartaður aðili (óskum eftir upplýsingum um hver það var!) tekið að sér að setja saman yfirlitsmynd til að skýra það allt saman út í eitt skipti fyrir öll.
Þess má svo að lokum geta, að nú í janúar hefjast sýningar á Ófærð í fjölmörgum sjónvarpsstöðum víða um heim, þar á meðal á Norðurlöndunum og í BBC, breska ríkisútvarpinu og má búast við að hróður hins þolinmóða Andra („Ég verð bara fluga á vegg, er það ekki? — Nei, frekar svona björn á vegg. Skógarbjörn á vegg.“) muni berast enn frekar um veröldina.
Íslensk dagskrárgerð eins og hún gerist best. Eitthvað sem við horfum öll á, höfum öll skoðun á og bíðum spennt eftir hverjum þætti.