„Þetta mál er stærra en Julian Assange og Wikileaks, það snýst um frelsi fjölmiðla og lýðræðið.“ sagði Ögmundur Jónasson f.v. innanríkisráðherra í sjónvarpsviðtali við rússneska miðilinn Russia Today og varpaði fram þeirri spurningu hvort hægt sé að treysta breska réttarkerfinu.
Ögmundur telur framsalsmál Julian Assange vera prófstein á það. „Lögin skulu gilda jafnt fyrir alla, en það hefður þó aðeins gildi þegar farið er eftir þeim.“ Fyrir því hljóti að vera tvenn skilyrði: Að réttarkerfið sé traust og óhlutdrægt. Í annan stað að misgjörðir og glæpir stjórnvalda jafnt og einstaklinga séu færðir fyrir sjónir almennings.
Í viðtalinu gefur Ögmundur lítið fyrir þær skýringar forsætisráðherra Bretlands að málið snúist um ásakanir um kynferðisbrot í Svíþjóð. Hann gagnrýnir utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, sem Ögmundur segir hafa kallað Wikileaks „sjálfstæða leyniþjónustu sem sé forgangsverkefni að ráðast á.“
Ögmundur segir: „Þá spyr ég, hver er að tala þarna? Hann [Pompeo] er að tala fyrir hönd bandarískra stjórnvalda, sem urðu uppvís að því að njósna, ekki eingöngu um Merkel, kanslara Þýskalands, heldur um alla borgara Evrópu. Þarna eru gríðarlegar mótsagnir og hræsni.“
„Ég staðfesti að þessi stefna Pompeo er ekki ný. Árið 2011 sendu bandarísk stjórnvöld flugfarm af leyniþjónustumönnum FBI og fulltrúum saksóknara til Íslands í leyfisleysi. Sækja þarf um samvinnu og leyfi fyrir lögregluaðgerðum og rannsóknum í öðrum ríkjum. Þeir höfðu engin slík leyfi íslenskra stjórnvalda þegar þeir komu hingað til að klína sakarefnum á Julian Assange og Wikileaks. Þetta er eitt stórt samsæri. Mín viðbrögð voru þau að engin slík starfsemi gæti farið fram án leyfis íslenskra stjórnvalda. Þannig að þeir voru beðnir um að hafa sig á brott.“
Ögmundur segir málið snúast um uppljóstrara og hvort leyfa eigi stjórnvöldum að kremja þá. „Við eigum að styðja uppljóstrara, ekki brjóta þá á bak aftur,“ og undirstrikar hlutverk Wikileaks við að upplýsa um ýmis mál tengd stjórnvöldum, samtökum eða einstaklingum sem hafa verið færð fram í dagsljósið. Hann tók TISA samkomulagið sem dæmi, auk annarra stórra hagsmunamála fyrir almenning sem fóru leynt þar til Wikileaks afhjúpaði þau. „Það er beinlínis skylda fjölmiðla, sem hafa þegið upplýsingar frá Wikileaks til að birta sem fréttaefni hjá sér, að standa með þeim núna.“
Ögmundur sagði að lokum að heimurinn sé nú að vakna til vitundar um mikilvægi uppljóstrara, fjölmiðlafrelsis og gagnsæis.