Ömmur og afar farin að versla á Netinu — sóknarmöguleikar miklir

Vörn snúið í sókn — sóknarmöguleikar í netverslun á óvissutímum — Birna Íris Jónsdóttir, rekstrarstjóri upplýsingatækni og stafrænnar þróunar hjá Högum, ræðir við Björn Inga Hrafnsson í Hlaðvarpi Viljans um byltinguna sem hefur orðið í netverslun vegna Kórónuveirunnar og hvort við munum nokkru sinni hverfa alveg aftur til fyrri hátta.

Birna Íris, sem er tölvunarfræðingur að mennt, segir að hafa verið í huga Fjögur S, þegar kemur að stafrænni vegferð hjá fyrirtækjum.

  • Sýn og stefna um málið verða að liggja fyrir.
  • Samtalið og samstarf innan fyrirtækisins verður að vera gott því tæknimálin, stafræna vegferðin á sér ekki bara stað hjá tæknifólkinu.
  • Undirliggjandi stoðir verða að vera góðar. Þetta eru starfsmennirnir, tæknilegir innviðir, öryggi og ferlar.
  • Og svo er samstarf milli fyrirtækja og stofnanna gríðarlega mikilvægt. Það er enginn einn aðili sem getur allt og mikilvægt að fókusa á það sem er mikilvægast og leyfa öðrum að vera sérfræðingar í sínu.

Netverslun hér á landi og annars staðar hafi verið í mikilli uppbyggingu undanfarin ár, en tilkoma Kórónuveirunnar og lokun verslana um allan heim, útgöngubann og fjarlægðamörk, hafi gert verslunarfólki nauðsynlegt að reima á sig hlaupaskóna og taka á sprett. Ekkert annað hafi verið í boði.

Hún bendir á að Hagkaup hafi nýlega opnað netverslun á methraða sem fari gríðarlega vel af stað. Þar sé unnið í samstarfi við Póstinn, unnið með 2-3 afhendingarhólf daglega og öll hólf hafi verið uppbókuð frá fyrsta degi.

Bónus sé ekki með netverslun, en þar hafi áhersla verið lögð á aukna sjálfsafgreiðslu og snertilausnir. Hækkuð fjárhæðarmörk skipti miklu mali, því margir vilji sleppa því að stimpla pin-númerin á posa þessa dagana af ótta við smit.

Útilíf hafi opnað netverslun á dögunum og þar hafi orðið gífurleg aukning, enda mikil spurn eftir æfingatækjum og fatnaði þar sem líkamsræktarstöðvar og sundlaugar séu lokaðar og allir að opna sína eigin líkamsrækt heima við.

Hjá Olís standi til að skoða netlausnir í tengslum við matarpantanir á t.d. Grill 66 o.fl.