„Óþarflega vont orðalag“ að segja ríkisstjórninni að standa í lappirnar gagnvart sóttvarnalækni

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, viðurkennir að það hafi verið „óþarflega vont orðalag“ hjá sér á dögunum að kalla eftir því að ríkisstjórnin stæði við gefin fyrirheit um fyrirkomulag á landamærunum og að ríkisstjórnin þyrfti að standa í lappirnar gagnvart sóttvarnalækni. Hann segir að ferðaþjónustan gæti vel lifað við einhverja útfærslu á skimunum á landamærunum og segir að sú staðreynd að Ísland sé komið á rauðan lista Sóttvarnastofnunar Evrópu yfir nýgengi smita, muni ekki breyta öllu um vinsældir Íslands sem ferðamannastaðar nú í sumar.

Þetta er meðal þess sem kom fram í þættinum Vikulokunum á Rás 1 sem Magnús Geir Eyjólfsson hafði umsjón með í gær. Auk Jóhannesar Þórs sátu Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, og Karen Kjartansdóttir sérfræðingur í almannatengslum og fv. framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar fyrir svörum.

Karen Kjartansdóttir, Jóhannes Þór Skúlason og Björn Ingi Hrafnsson.

Björn Ingi benti á að smittölur síðustu daga séu ógnvekjandi og að þjóðin þurfi að halda niður í sér andanum næstu daga meðan kemur í ljós hvort stórfjölgun alvarlegra veikinda verði með innlögnum á Landspítalann. Sem betur fer hafi stærstur hluti þjóðarinnar verið bólusettur og fólk eigi erfitt með að ímynda sér harðari sóttvarnaaðgerðir í því ljósi, en svo geti þó vel farið að grípa þurfi til þeirra. Það yrðu gífurleg vonbrigði fyrir landsmenn, sagði Björn Ingi og benti á að með skylduskimun fyrir alla á landamærunum hafi náðst að grípa farþega með delta-afbrigðið þar margoft án þess að það bærist inn í landið. Eftir að takmörkunum var aflétt þann 1. júlí hafi afbrigðið hins vegar átt greiða leið inn í landið og afleiðingarnar af því blasi nú við öllum.

Karen sagði að væntingastjórnun af hálfu ríkisstjórnarinnar hafi verið svolítið ábótavant. Fólk hafi fagnað innilega afnámi innanlandsaðgerða og því að eðlilegt líf tæki aftur við og þess vegna væru vonbrigðin nú svo óskaplega mikil. Erfitt sé að segja til um hvað sé framundan í ljósi bólusetninga og voru þau öll sammála um að kosningabaráttan og komandi kosningar í september geti litast mjög af því.