Óhætt er að mæla með íslensku þáttaröðinni Kötlu sem frumsýnd var á Netflix á sjálfan þjóðhátíðardaginn, 17. júní sl. Þetta er sannkallað stórvirki og ótrúlegt sjónarspil, þar sem fer saman stórbrotið landslag og atburðarás sem fær hárin til að rísa.
Handritið er blanda af íslenskum sagnaarfi og nútímalegri vísindaskáldsögu og fer vafalaust í taugarnar á þeim sem vilja ekkert sjá á skjánum sem gæti ekki gengið upp í raunveruleikanum. En fyrir okkur hin sem leyfum okkur stundum að ímynda okkur eitt og annað er Katla meistaralega vel heppnað drama þar sem vandlega er farið eftir forskriftinni um að lok hvers þáttar eigi að fela í sér óvænt tíðindi; einhverja bombu sem kallar strax á næsta þátt.
Baltasar Kormákur og hans fólk má vera stolt af afrakstrinum og landkynningin sem felst í þessari stórframleiðslu Netflix verður væntanlega ekki mæld í peningum. Hér skal því spáð, að önnur þáttaröð fari fljótlega í framleiðslu, enda viljum við væntanlega flest (nema kannski Jón Viðar) fá að sjá meira…