Óvænt stórveisla um norska pólitík

Óhætt er að mæla með óvæntri stórveislu sem frændur vorir á norska ríkissjónvarpinu hafa sent frá sér, eftir mikla velgegni EXIT-þáttaraðanna þriggja víða um heim.

Nú er það norsk pólitík sem á sviðið og aðalpersónurnar í þáttunum Makta eru þeir sem verið hafa í framlínu Verkamannaflokksins þar í landi.

Þættirnir minna á Verbúðina, þar sem tónlist, klæðaburður, sígarettureykingar og fleira skemmtilegt minnir á gamla og liðna tíma og ramma vel inn sögusviðið. Mann langar ósjálfrátt að finna gömlu pípuna og safna börtum á nýjan leik!

Læknirinn og hugsjónamanneskjan Gro Harlem Brundtland er litin hornauga í flokki verkafólks, nýkomin frá Harvard, en hún kemur af góðu og velmeinandi fólki og svo vantaði konu í eitt ráðuneytið…

Veitt er fágætlega vel heppnuð innsýn í valdabaráttu Verkamannaflokksins í Noregi á áttunda áratug síðustu aldar, enda varð vegur Brundtland beinn og breiður eftir því sem árin liðu og gegndi hún embætti forsætisráðherra þar í landi samtals í tíu ár.

Þáttaröðina má finna á spilara RÚV. Aðalhlutverk: Kathrine Thorborg Johansen, Jan Gunnar Røise og Sjur Vatne Brean. Leikstjóri: Yngvild Sve Flikke.