Ríkisstjórnarsamstarfið: „Okkur hefur gengið býsna vel“

Ástæða er til að hrósa Morgunblaðinu og þeim Andrési Magnússyni og Stefáni Einari Stefánssyni fyrir viðtal þeirra í Dagmálum við oddvita ríkisstjórnarinnar í hörkufróðlegum þætti í gær, sem tekinn var upp í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.

Viðtalið hefur vakið mikla athygli, en líka pirring, aðallega meðal vinstrafólks og fjölmiðlafólks á öðrum miðlum sem fékk annað hvort ekki sömu hugmynd eða hefur ekki sama aðgang að forystufólki í ríkisstjórninni og þeir Moggamenn.

En höfundar samsæriskenninga um að Katrín, Bjarni og Sigurður Ingi hafi mætt þarna í huggulegt kaffiboð án þess að krefjandi spurningar hafi verið settar fram, geta lagt þær til hliðar, því Andrés og Stefán Einar spurðu um margt sem brunnið hefur á þjóðinni og gerðu það vel.

Greinilegt er af viðtalinu að dæma, að ríkisstjórnarsamstarfið varð fyrir þungu höggi með afsögn Bjarna Benediktssonar sem fjármála- og efnahagsráðherra. Ekki var sjálfgefið að halda áfram, fundahöld þeirra þriggja sneru að „erindi ríkisstjórnarinnar“ og hvort halda ætti samstarfinu áfram.

Sig­urður Ingi bend­ir á að þótt erfiðleikar hafi komið upp í samstarfinu, þurfi að hug­leiða af­leiðing­ar þess að hlaupa frá því. Hann spyr hvort það hefði reynst far­sælla að efna til kosn­inga við þess­ar aðstæður eða hvort ein­hverj­ir aðrir flokk­ar á þingi gætu myndað betri rík­is­stjórn til þess að fást við aðsteðjandi vanda. En hann er áfram á því að sam­starfið hafi gengið vel. „Okk­ur hef­ur gengið býsna vel.“

Þótt sannarlega megi deila um þá fullyrðingu, er vel þess virði að horfa á viðtalið og kynna sér baksvið pólitískra atburða undanfarinnar daga. Dag­mál eru streymi Morg­un­blaðsins á net­inu og eru opin öll­um áskrif­end­um blaðsins. Viðtalið allt má sjá með því að smella hér.