RÚV sýnir frá Alþingi á aukarás sinni

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis ásamt skrifstofustjóranum fyrrverandi Helga Bernódussyni. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Samkomulag hefur verið gert við RÚV um að útsendingum frá þingfundum og opnum nefndarfundum verði sjónvarpað beint á RÚV 2 til viðbótar við útsendingu á RÚV.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, tilkynnti um þetta við upphaf þingfundar í dag.

Áður var sjónvarpsútsendingum frá Alþingi á RÚV þannig háttað að sjónvarpað var á aðalsjónvarpsrás RÚV frá því að þingfundur hófst þar til regluleg sjónvarpsdagskrá hófst um kl. 17. Stæði þingfundur lengur var honum sjónvarpað morguninn eftir.

Kosturinn við að senda út á RÚV 2 er að þar er dagskráin að jafnaði mun styttri og marga daga ársins er þar engin dagskrá. Eftir breytinguna verður fyrirkomulagið svipað, þ.e. að útsending frá Alþingi verður frá því að þingfundur hefst og þar til auglýst dagskrá á RÚV 2 hefst, þ.e. þegar rásin er dagskrársett, sem er ekki alla daga.

Fyrst um sinn verður útsendingin einnig samhliða á aðalsjónvarpsrás RÚV með sama hætti og áður.