Forsvarsmenn sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja hafa um margra mánaða skeið haldið því fram, að þeim hafi ekki verið kunnugt um ýmsar ráðstafanir Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra dótturfélags fyrirtækisins í Afríku, í Namibíu. En fyrirtækið hefur verið sakað um mútugreiðslur til háttsettra ráðamanna þar í landi í skiptum fyrir fiskveiðiheimildir.
Samherji birti nýtt myndband um helgina, þar sem fram kemur að Jóhannes hafi farið á bak við yfirmenn sína hjá Samherja og verið búinn að leggja á ráðin um að hefja rekstur nýs sjávarútvegsfyrirtækis í Namibíu með öðru íslensku útgerðarfyrirtæki og var ætlunin að nýta sér þau viðskiptasambönd sem Samherji hafði byggt upp í landinu um árabil.
Fram kemur í myndbandinu, að lögmenn Samherja hafi nú afhent embætti héraðssaksóknara, að eigin frumkvæði, allar dagbækur Jóhannesar sem hann hélt á meðan hann stýrði félögum Samherja í Namibíu. Dagbækurnar fundust við endurheimt á innra drifi félagsins og hafa yfir milljón skjöl og tölvupóstar verið rannsakaðir af norskri lögfræðiskrifstofu vegna málsins.
Ekkert í gögnum úr tölvum Jóhannesar gefi til kynna að hann hafi fengið fyrirmæli frá Íslandi um mútugreiðslur eða aðra óeðlilega viðskiptahætti.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir í þættinum að hann og fyrirtækið hafi gert mistök með því að treysta Jóhannesi og hafa ekki betra eftirlit með störfum hans og hann víkist ekki undan þeirri ábyrgð. Hins vegar sé alveg ljóst, að hann hafi aldrei gefið nein fyrirmæli um mútugreiðslur og gögnin sem Héraðssaksóknari hafi fengið, staðfesti það.