Ástæða er að hrósa Ríkissjónvarpinu sérstaklega fyrir framúrskarandi þátt fyrr í kvöld sem markar upphafið að þáttaröð þar sem fjallað er um líf Íslendinga sem búa við skerta starfsgetu eða líkamlega fötlun af einhverjum toga.
Dagskrárgerð er í höndum þeirrar margreyndu Elínar Sveinsdóttur og í þessum fyrsta þætti fengu sjónvarpsáhorfendur innsýn í líf Brands Bryndísarsonar Karlssonar sem af einstakri elju hefur sigrast á margskonar hindrunum og tekur virkan þátt í samfélaginu.
Ef marka má þennan fyrsta þátt, er hér um að ræða einstakar samtímafrásagnir af því sem kalla mætti sigri mannsandans og um leið er þetta þörf áminning fyrir okkur öll um að ekkert er sjálfsagt og viðfangsefni hversdagsins eru ekkert til að kvarta mikið yfir.
Svona á íslenskt sjónvarp að vera.