Steindi hættir sprellinu og vendir kvæði sínu í kross

„Allt mitt líf hefur snúist um grín, ég hef skrifað og leikið í ótal sjónvarpsþáttum, áramótaskaupum og öðru gríntengdu efni. Nú er kominn tími til að breyta til og hætta þessu eilífðar sprelli. Það er ekki manni á mínum aldri sæmandi að ætla að flissa sig í gegnum fertugsaldurinn.“

Þetta segir grínistinn og leikarinn góðkunni, Steinþór H. Steinþórsson, betur þekktur sem Steindi, en nýir sjónvarpsþættir í umsjón hans hefja göngu sína á næstunni á Stöð 2.

„Núna langar mig að venda kvæði mínu í kross, leggja trúðsnefið á hilluna í bili og fá að kynnast ykkur, fólkinu í landinu. Fólkinu sem ræktar radísur i glugganum heima hja sér, málar geymsluna sína i flippuðum lit, safnar skiptimiðum og álfelgum og maxar visakortin sín á Tenerife á hverju sumri,“ segir hann.

„Sjáumst á skjánum eða jafnvel fyrr því hver veit nema ég banki upp á hjá þér með myndavél og míkrófón,“ bætir hann við hlæjandi.