Stórkostleg bók skilar sér ekki á skjáinn

Sjónvarpsþáttaröðin Flateyjargáta, sem gerð er eftir samnefndri sakamálasögu Viktors Arnars Ingólfssonar, og hefur verið sýnd undanfarin sunnudagskvöld í Ríkissjónvarpinu nær einhvern veginn ekki að endurspegla þá frábæru bók sem höfð er til grundvallar.

Atburðarásin er hæg, leikur fremur stirðbusalegur og hljóðið afleitt. Nokkuð sem minnir á árdaga íslenska kvikmyndavorsins, en á ekki að gerast í rándýrri þáttaröð sem gerð er 2018 og ætti að geta verið í allra fremstu röð.

Handrit skrifa Margrét Örnólfsdóttir og Sólveig Arnarsdóttir. Edduverðlaunahafinn Björn B. Björnsson leikstýrir.

Lokaþátturinn verður næstkomandi sunnudagskvöld og enn vonar maður að úr rætist og allt gangi á endanum upp. En svo sannarlega bendir fátt til þess þegar hér er komið við sögu.