Takið frá þriðju helgina í nóvember fyrir nýja seríu af Krúnunni

Fjölmargir royalistar og aðrir aðdáendur bresk/bandarísku gæðaþáttanna Krúnunnar (The Crown), geta tekið gleði sína, því nú hefur verið tilkynnt að þriðja sería þáttaraðarinnar komi inn á Netflix í heilu lagi 17. nóvember næstkomandi.

Það má því búast við að allrahörðustu aðdáendur muni taka þriðja seríuna í einum rykk þriðju helgina í nóvember og jafnvel hita upp með því að rifja upp kynnin fyrst við hinar seríurnar tvær.

Í takt við æviskeið bresku konungsfjölskyldunnar mæta nýir leikarar til leiks og það er engin önnur en óskarsverðlaunaleikkonan Olivia Colman sem fer með hlutverk Elísabetar annarrar Bretadrottningar í nýju seríunni.

Sögusviðið að þessu sinni er Bretland á árunum 1964-1977, þar sem margt gekk á í bresku þjóðlífi og stjórnmálum.

Tobias Menzies mætir til leiks sem Filippus drottningarmaður, Helena Bonham Carter er Margrét prinsessa, Josh O’Connor er Karl Bretaprins. Erin Doherty er Anna prinsessa, Marion Bailey er Elísabet drottingarmóðir og Jason Watkins fer með hlutverk Harold Wilson forsætisráðherra. Gillian Anderson mætir svo til leiks sem engin önnur en Margaret Thatcher.

The Crown er skylduáhorf á hverju menningarheimili.