„Þarna gerði Alþingi Íslendinga illa í buxurnar“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að honum standi næst að hætta að beina spjótum sínum að „einmana dómara“ við Héraðsdóm Reykjavíkur sem úrskurðaði ólöglegt að skylda komufarþega frá tilteknum löndum til að dvelja í sóttvarnahúsi, því miðað við upplýsingar frá formanni Velferðarnefndar Alþingis sé ljóst að Alþingi Íslendinga hafi gert illa í buxurnar við lögfestingu nýrra sóttvarnalaga fyrir áramót.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í samtali Björns Inga á Viljanum við Kára og Þórólf Guðnason sóttvarnalækni sem sjá má hér að neðan. Þar staðfestir sóttvarnalæknir að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hafi opnað landið fyrir bólusettum ferðamönnum eða með mótefni frá ríkjum utan Schengen gegn ráðleggingum sínum og kveðst hafa áhyggjur af vaxandi óróleika í samfélaginu vegna sóttvarnaaðgerða.

Þeir Kári og Þórólfur meta stöðu og horfur í baráttunni við faraldurinn, hvernig næstu vikur og sumarið getur orðið hér á landi og hverjar líkur eru á að ný stökkbreytt afbrigði veirunnar líti dagsins ljós á næstunni.