Krúnan – The Crown – er komin aftur á Netflix, þriðji hluti hinnar vinsælu þáttaseríu um bresku konungsfjölskylduna, og nú með Óskarsverðlaunaleikkonunni Olivia Colman sem Elísabetu annarri drottningu og Helenu Bonham-Carter sem Margréti prinsessu. Sannarlega magnað.
Ein óvænt og dularfull persóna skýtur upp kollinum í seríunni, en það er Alice prinsessa, leikin af Jane Lapotaire – en hún var móðir Filippusar prins, drottningarmanns, leiknum af Thomas Menzies.
En hver var Alice prinsessa? Um það fjallar miðillinn Kveller í fyrradag.
Alice prinsessa af Battenberg – fullu nafni Victoria Alice Elizabeth Julia Marie, einnig kölluð Andrew prinsessan af Grikklandi og Danmörku, hafði verið talin heyrnarlaus og geðveik. Hún var síðar heiðruð af Helfararminningarsafninu Yad Vashem, sem „réttlát á meðal þjóða“ fyrir hetjudáð sína í seinni heimsstyrjöldinni.
Grískir gyðingar voru nauðungarfluttir og myrtir
Í seinni heimsstyrjöldinni bjó Alice prinsessa í Aþenu í Grikklandi á meðan mest öll gríska konungsfjölskyldan var í útlegð í Suður-Afríku. Tengdasynir hennar voru nasistar á meðan sonur hennar, Filippus prins, barðist í konunglega breska sjóhernum. Öxulveldin hernumdu Grikkland frá 1941 til loka stríðsins. Aþena hafði verið undir stjórn Ítala, allt þar til Mussolini var veginn í júlí 1943.
Byrjað var í september sama ár og Þjóðverjar tóku Aþenu, að nauðungarflytja gyðinga frá Grikklandi. Á árunum tveimur sem fylgdu í kjölfarið voru um það bil 60 til 70 þúsund grískir gyðingar myrtir, tæplega 80 prósent af öllum gyðingum landsins.
Í september 1943 tók Alice prinsessa að sér meðlimi Cohen gyðingafjölskyldunnar frá Trikala í Grikklandi. Hún faldi þau á heimili sínu og sagði engum frá því í mörg ár.
Skjólstæðingur prinsessunnar steig fram um síðir
Þessi ótrúlega saga varð almenningi ekki kunn fyrr en árið 1992, þegar Michael Cohen greindi embættismönnum Helfararminningarsafnsins frá því hvernig honum, systur hans og móður var bjargað af prinsessunni.
„Cohen fjölskyldan dvaldi í bústað Alice prinsessu fram að frelsun Aþenu. Á stundum urðu Þjóðverjarnir tortryggnir og Alice prinsessa var kölluð til yfirheyrslu hjá Gestapo. Með því að nota heyrnarleysið lét hún eins og hún skildi ekki spurningarnar, þar til þeir létu hana í friði.“
Fjölskyldan slapp því vegna hugrekkis prinsessunnar.
Filippus prins flutti ræðu við athöfnina þegar móðir hans var heiðruð af Helfararminningarsafninu árið 1994, og lýsti því hvernig honum hefði áður ekki verið kunnugt um hetjudáð móður sinnar, en hún hafði aldrei minnst á þetta.
„Mig grunar að það hafi aldrei hvarflað að henni að það sem hún gerði væri á nokkurn hátt sérstakt,“ bætti hann við. „Hún hefði litið svo á að þetta væru fullkomlega eðlileg viðbrögð manneskju gagnvart náunganum í neyð.“
Eftir seinni heimstyrjöldina stofnaði Alice prinsessa Hjúkrunarreglu grískra rétttrúnaðarnunna. Hún bjó áfram í Aþenu þar til árið 1967, þegar stjórnmálaástandið þar varð of hættulegt, og Elísabet II drottning lét flytja hana til Englands, þar sem hún lést árið 1969, 84 ára að aldri. Hún er jarðsett í Jerúsalem, í Sankti Magdalena klaustrinu á Ólífufjallinu.