Þegar ég er freðinn, syngur Auður: „Hvernig samræmist þetta forvarnarstarfi?“

Tónlistarflutningur tónlistarmannsins Auðar á tónlistarveislu Rásar 2 við Arnarhól á Menningarnótt sætir gagnrýni, því hann söng þar vinsælt lag um að vera undir áhrifum vímuefna í beinni útsendingu Sjónvarpsins og á Rás 2.

Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri Katla Travel og formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, spyr á fésbókinni hvernig samræmist forvarnarstarfi að bjóða upp á atriði sem þetta á besta tíma þegar yngri kynslóðin er öll að horfa.

Tónlistarmaðurinn Auður nýtur mikilla vinsælda um þessar mundir og plata hans, Afsakanir, sló rækilega í gegn í fyrra. Eitt vinsælasta lag hans ber nafnið Freðinn og fjallar það um mann sem er undir áhrifum vímuefna.

„Ég tek það fram að ég þekki ekkert til tónlistarmannsins eða hans sögu en það var eitthvað sem argaði innan í mér við að hlusta á textann sem hann söng. Þar er hann sem sagt „freðinn“ eða í dópvímu og túlkunin er þannig að það sé bara mjög eðlilegt ástand að vera í vímu. Fyrir börn, sem ég er viss um að hlusta á þennan tónlistarmann (13 ára sonur minn þekkti hann), gæti þetta virkað sem eftirsóknarvert, skemmtilegt og eðlilegt. Upphafning vímuástands.

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

Því miður hafa alltof margir kynnst afleiðingum þess af því að vera reglulega „freðinn“ og óþarfi að fara nánar út það hér. Ég er mér líka fullmeðvituð um rit- og tjáningarfrelsi og ég veit vel að börn og unglingar hafa greiðan aðgang að hverju sem er á netinu,“ segir Bjarnheiður sem bendir á að listamaðurinn hafi komið fram á fjölskylduskemmtun, sem hafi verið sjónvarpað beint á RÚV, sem óneitanlega gefi atriðinu vægi og „normaliserar“ það á vissan hátt.

„Hvernig á að útskýra fyrir börnum að boðskapurinn sem þessi marglofaði og vinsæli listamaður flytur sé vondur? Hvernig samræmist þetta forvarnarstarfi? Eða finnst fólki þetta almennt bara allt í lagi?“ spyr Bjarnheiður.

Í laginu syngur Auður:

Þegar ég er freðinn (þegar ég er freðinn, þegar ég er freðinn)
Hugsa til þín svona í miðri vímu (í miðri vímu, í miðri vímu)
Ég hugsa alltaf um þig þegar ég er freðinn (þegar ég er freðinn, þegar ég er freðinn)
Hugsa til þín svona í miðri vímu (í miðri vímu, í miðri vímu).