„Þetta verður skringilegur tími“

Dr. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og prófessor í læknisfræði, gagnrýnir Persónuvernd harðlega fyrir að neita að gefa leyfi fyrir birtingu upplýsinga úr skimun úr rannsóknum fyrir Kórónaveirunni í virtu læknariti. Um allan heim sé unnið hörðum höndum að því að greina þann faraldur sem geysi um heiminn og Vísindasiðanefnd hafi yfirfarið málið með hraði á föstudag, en Persónuvernd móttekið erindið og sagt að það yrði skoðað eftir helgi.

„Með þessari afstöðu sinni er Persónuvernd að fremja glæp. Fólk er að veikjast, fólk er að deyja, heimur að hrynja og Persónuvernd segir: Við afgreiðum þetta eftir helgi,“ segir Kári og bætir við: „Það er ljóst að margir munu missa vinnuna vegna faraldurins. Skyldu einhverjir þeirra vinna hjá Persónuvernd?“

Í nýju viðtali í Hlaðvarpi Viljans ræðir Kári um áhrif Kórónaveirunnar um heim allan, stöðu mála hér og veltir fyrir sér hve langan tíma muni taka fyrir samfélagið hér á landi og annars staðar í heiminum að komast í samt lag aftur.

Hann segir að næstu vikur og mánuðir verði skringilegur tími en á vissan hátt séu þessir atburðir að færa okkur nær hvert öðru.

Hann segir grátbroslegt að vera með dýran og flókinn tækjabúnað, en leitað sé dyrum og dyngjum að pinnum til að stinga upp í nefið á fólki og það valdi truflunum á skimunum. „Hann er bara ekki til,“ segir Kári, en landlæknir hefur sagt að allir angar séu úti í því skyni að tryggja Íslendingum fleiri pinna á næstu dögum, en önnur lönd séu líka í samskonar vanda.