Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er 67 ára í dag. Ættingjar hans og vinir útbjuggu kveðju til hans á myndbandi með frumsömdum afmælisbrag í tilefni dagsins.
Þórólfur, sem er sérfræðingur í barnalækningum og smitsjúkdómum barna, hóf störf sem yfirlæknir á sóttvarnasviði Embættis landlæknis árið 2002 og hefur starfað hjá embættinu óslitið síðan. Sérsvið hans hjá embættinu hefur einkum verið bólusetningar barna. Þórólfur hefur auk starfa sinna hjá embættinu unnið sem sérfræðingur á Barnaspítala Hringsins og rekið eigin lækningastofu.
Þórólfur lauk námi í almennri læknisfræði frá Háskóla Íslands 1981, almennum barnalækningum frá Háskólanum í Connecticut í Bandaríkjunum 1988 og smitsjúkdómum barna frá Háskólanum í Minnesota í Bandaríkjunum 1990.
Myndbandskveðjuna má sjá með því að smella hér.
Þórólfur hóf doktorsnám í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands undir leiðsögn Haraldar Briem árið 2007 og í nóvember 2013 varði hann doktorsritgerð sína sem nefnist „Sýkingar og sýklun pneumókokka hjá börnum á íslenskum leikskólum – faraldsfræði, áhættuþættir og íhlutandi aðgerðir“.
Hann varð sóttvarnalæknir árið 2015. Viljinn óskar honum innilega til hamingju með daginn!