Andlát og dánarorsök ástralska ferðamannsins sem lést á dögunum á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík af völdum Kórónaveirunnar kom aftan að íslenskum heilbrigðisyfirvöldum, þar sem ekki hafði verið lýst hefðbundnum sjúkdómseinkennum veirunnar.
Þetta segir dr. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við Björn Inga Hrafnsson í Hlaðvarpi Viljans, þar sem hann situr fyrir svörum um Kórónaveiruna og stöðu mála hér á landi, en 473 hafa nú greinst með veiruna hér á landi og mörg þúsund manns eru í sóttkví.
Á blaðamannafundi landlæknis og Almannavarna í dag kom fram að til stendur að herða á fjöldatakmörkunum í samkomubanni hér á landi og útlista ýmsa starfsemi sem ekki verður lengur leyfileg sakir nándar, t.d. hárgreiðslu- og rakarastofur, nuddstofur og snyrtistofur.
Þórólfur útilokar ekki að grípa þurfi til útgöngubanns hér á landi ef þróun mála verður ekki hagfelld á næstu dögum og vikum og mikilvægt sé að vinna eftir þeim áætlunum sem lagt hafi verið upp með.
Í viðtalinu er komið víða við; sóttvarnalæknir er spurður út í áhrif veðurfars hér á landi á útbreiðslu veirunnar, nýja rannsókn vísindamanna við Imperial College í Lundúnum, fjölda skimana hér á landi miðað við önnur lönd og hve langan tíma fólk geti búist við að hinar fordæmalausu ráðstafanir með allskonar takmörkunum á daglegu lífi fólks muni standa yfir.
Hann segir ótrúlegt að verða vitni að þeim atburðum sem eru að verða í heiminum. Þetta sé óraunverulegt og í raun eins og að horfa á bíómynd. Staðan sé þó sú að undir það að eitthvað slíkt geti gerst, hafi sóttvarnaryfirvöld í öllum löndum búið sig undir lengi.
Lesendur Viljans geta hlýtt á viðtalið hér að neðan, en Hlaðvarp Viljans verður framvegis aðgengilegt á Spotify og Itunes og helstu efnisveitum. Eru lesendur hvattir til að gerast áskrifendur að Hlaðvarpinu svo nýir þættir berist þeim sjálfkrafa um leið og þeir birtast.