Michael Osterholm, einn þekktasti smitsjúkdómafræðingur heims sem árum saman hefur varað heimsbyggðina við aðsteðjandi heimsfaraldri á borð við Kórónaveiruna, segir að faraldurinn nú sé rétt að byrja. Hann geti orðið tíu til fimmtán sinnum skæðari en hefðbundin árstíðabundin inflúensa með tilliti til fjöldra sýktra og látinna í heiminum og flest ríki heims séu vanmáttug til að takast á við afleiðingar þess sem koma skal.
Osterholm, sem er prófessor við Háskólann í Minnesota, skrifaði bók um heimsfaraldra árið 2017 þar sem hann varaði við því að stutt væri í næstu árás veirusjúkdóms á heimsbyggðina. Í grein í tímaritinu Foreign Affairs árið 2005 sagði hann að tíminn til að búa sig undir næsta heimsfaraldur væri að renna út.
Hægt er að sjá viðtal við Osterholm hér í hlaðvarpi Joe Rogans, en þetta viðtal getur eiginlega talist skylduáhorf fyrir alla þá sem vilja fræðast betur um Kórónaveiruna sem tröllríður nú heimsfréttunum.