Tom Cruise svíkur ekki í bestu mynd sumarsins

Sumar myndir er einfaldlega best að sjá í bíó, fremur en á sjónvarpsskjánum, og nýjasta Mission Impossible myndin er sannarlega dæmi um það. Tom Cruise er enn mættur í Dead Reckoning, sem komin er í íslensk kvikmyndahús og er hún sjöunda myndin um harðsnúna njósnagengið og telst vera fyrri parturinn og þegar búið að taka upp þann áttunda.

Þótt Cruise sé orðinn 61 árs, er hann enn sjálfur í öllum áhættuatriðum eins og venjulega, og það er nóg af hasar í þessari mynd. Farið er víða um heim og spennan mikil og útkoman er einfaldlega frábær; klárlega besta mynd sumarsins og mikill fengur fyrir aðdáendur alvöru stórmynda um allan heim.

Ekki spillir að sjá myndina í nýja Ásberg-salnum í Kringlunni; þar er allt upp á tíu og hljóð og mynd í sérflokki og eiginlega fáránlegt hve hljómgæðin eru orðin mikil –– tilfinningin er að maður sé staddur með Tom Cruise í hasarnum miðjum, en það var jú líklega tilgangurinn.