Útilokar ekki formannsframboð í Framsóknarflokknum

Áhyggjur Lilju D. Alfreðsdóttur menntamálaráðherra og varaformanns Framsóknarflokksins af Íslandi í skugga kórónuveirunnar snúast mest að atvinnuleysinu. Hún vill stórauka áherslu á menntun og nýsköpun, í því liggi möguleikar Íslands til framtíðar.

Lilja ræðir við Björn Inga Hrafnsson í Hlaðvarpi Viljans um fræg ummæli sín um ferðamennsku meðan ekki er fundið bóluefni við veirunni og stöðu Framsóknarflokksins í skoðanakönnunum og stjórnarsamstarfinu.

Hún segist ætla að halda umdeildu fjölmiðlafrumvarpi til streitu, enda sé full þörf á því að efla innlenda fjölmiðla við erfiðar aðstæður.

Aðspurð hvort hún velti því fyrir sér til framtíðar að gefa kost á sér til formennsku í Framsóknarflokknum, útilokar Lilja ekki neitt:

„Ég er í stjórnmálum af því ég hef virkilega ástríðu til þess að bæta mitt samfélag. Og mér finnst þetta miklu skemmtilegra en ég átt von á, satt að segja. Hef ég ákveðið mig? Nei, ég hef ekki ákveðið hvað ég ætla að gera, það kemur allt í ljós.“