Vanhugsað að hafa Jón Gnarr sem helstu sprautu áramótaskaupsins

Jón Gnarr í upphafssenu Áramótaskaupsins.

„Varðandi þetta Skaup; algerlega burtséð frá því hvað má um það segja efnislega, og algerlega burtséð frá því hvað má segja um Jón Gnarr og hans hæfileika; þá held ég hreinlega að það hafi verið vanhugsað að hafa hann sem helstu sprautu Skaupsins,“ segir Jakob Bjarnar Grétarsson blaðamaður.

Margir hafa tjáð sig um áramótaskaup Ríkissjónvarpsins þetta árið eins og jafnan og sýnist sitt hverjum. Jakob Bjarnar bendir á fésbókarsíðu sinni á að Jón Gnarr sé ekki hver sem er, hann sé fyrrverandi stjórnmálamaður og borgarstjóri.

Jakob Bjarnar Grétarsson blaðamaður.

„Hann hefur einfaldlega verið of mikill player í þjóðlífinu til að hægt sé að stilla honum upp í þá stöðu. Hvað þætti okkur um það ef Davíð Oddsson væri helsti handritshöfundur og leikari í Áramótaskaupi Ríkissjónvarpsins? Við myndum alltaf horfa á það með tilteknum gleraugum. Óhjákvæmilega.

Stuðningsmönnum Davíðs þætti það óborganlega fyndið og þeim sem hafa á honum litlar mætur stykki ekki bros. Og það hefði í raun lítið með gæði þess að gera,“ segir Jakob Bjarnar.

Trúður án erindis

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, tekur undir gagnrýni á aðkomu Jóns Gnarr að Skaupinu.

„Það er auðvitað með ólíkindum, að Ríkisútvarpið fái Jón Gnarr til að skrifa handrit að spaugi um liðið ár,“ segir hann.

Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

„Hann er hatursmaður Sjálfstæðisflokksins og alkunnur letingi og auðnuleysingi, tók full laun fyrir að gera ekki neitt sem borgarstjóri, en fann vanmetakennd sinni útrás í árásum á sjálfstæðismenn í borgarstjórn. Hann er trúður án erindis,“ segir Hannes.

Andstyggð á Þjóðkirkjunni

Páll Vilhjálmsson, blaðamaður og fv. formaður Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi, var sýnilega ekki hrifinn, ef marka má pistil hans á heimasíðu sinni:

„Andstyggð á þjóðkirkjunni og Sjálfstæðisflokknum var á sínum stað. Kata Jak. var gerð að undirsáta móðurflokksins og Samfylkingin orðin svo ómerkileg að hún fékk ekki atriði. Dittó Píratar.

Pólitískur rétttrúnaður trompar heilbrigðisvernd enda blóðgjöf i þágu þeirra sem gefa en ekki þiggja.

Lélegasta innslagið var af fundi ungra sjálfstæðismanna þar sem gamlingjar brostu að misheppnaðri fyndni um góða fólkið. Þeir sem ekki geta séð sig í spéspegli eru hégómlegir.“

Húmorinn nokkuð ellilegur

Baldur Hermannsson, fv. kennari sem gerði allt vitlaust með sjónvarpsþáttunum Þjóð í hlekkjum hugarfarsins um árið, segir:

Baldur Hermannsson. Ljósmynd: Rúnar Gunnarsson.

„Mér fannst áberandi að við gamlingjarnir í hópnum flissuðum öðru hverju en unga fólkið sjaldan og það held ég stafi af því hvað húmorinn var eitthvað ellilegur … vel unnið Skaup en dálítið gamaldags. Til dæmis hefði atriðið um stöðu kvenna í fyrirtækjum gert sig vel fyrir 20 árum en núna var það bara hallærislegt og sama gildir um hommana … væmið og vandræðalegt atriði en hefði hugsanlega gert sig fyrir daga Gleðigöngunnar, svo sem fyrir 20-30 árum.

Klausturbarinn var of langur en þar tók höfundur hárréttan pól í hæðina: notaðist mestan part við þessa frægu uppákomu eins og hún var og reyndi ekki að breyta henni, enda trompar veruleikinn í þessu tilfelli allan skáldskap.

Enn eitt: söngvarnir voru sérdeilis ófyndnir en það er ekkert nýtt … í gamla daga lögðu höfundar Skaupsins áherslu á fyndna söngtexta en sá góði siður er illu heilli löngu liðinn undir lok.

Minn dómur: vel unnið Skaup, vel leikið, gamaldags og misfyndið … eins og reyndar öll fyrri Skaup … ég hef séð þau betri en líka verri.“

Hvernig þótti þér Skaupið í ár, lesandi góður? Endilega segðu skoðun þína hér að neðan.