Viljinn birtir upptöku: „Ógeðslegasti fundur sem ég nokkru sinni verið á“

„Þetta var eins og í skáldsögunni Morðið á Austurlandahraðlestinni eftir Agöthu Christie. Það var farið í röð og setti hver rýtinginn í hana á eftir öðrum með skipulagðri aðför. Frekar brútal,“ segir heimildarmaður Viljans úr röðum Pírata, en átakafundur gærkvöldsins, þar sem Píratar höfnuðu framboði Birgittu Jónsdóttur í trúnaðarráð flokksins með afgerandi hætti, hefur vakið mikla athygli.

Viljinn greindi fyrstur fjölmiðla frá niðurstöðum fundarins í gærkvöldi, en Birgitta hefur sjálf ekki viljað tjáð sig um niðurstöðuna eða það sem fram fór, utan að hún setti stutta færslu og ljóð á fésbókina í dag.

Viljinn birtir hér að neðan upptöku af fundinum, frá heimildarmanni sem kýs að kalla sig Báru. Hann segir að fundarmenn, einkum þingflokkur Pírata, hafi varið mættur á fundinn til þess að vinna skipulega gegn framboði Birgittu. Þingmenn flokksins hafi enda allir greitt atkvæði gegn henni og Helgi Hrafn Gunnarsson beinlínis hvatt fundarmenn til þess að það yrði gert, þar sem Birgitta nyti ekki trausts og hún kynni ekki að halda trúnað.

Sagði hann að það væru eflaust margir að sem þyrðu ekki að fara með sömu ræðuna eins og hann gerði af ótta við árásir frá Birgittu.

„Ég hef aldrei orðið vitni að eins miklu drama á einum fundi. Eins og eitthvað úr Shakespeare,“ segir heimildarmaðurinn Bára í samtali við Viljann og bætir því við að um vel skipulagða aðför hafi verið að ræða. Fundurinn hafi strax einkennst af miklum æsingi. Borgarfulltrúar og þingmenn hafi talað gegn Birgittu, þótt hún sé einn stofnanda flokksins og þekktasti liðsmaður hans. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hafi borið þungar sakir á hana og steininn hafi tekið úr í ræðum Helga Hrafns.

Fáir hafi komið henni til varnar, en þó hafi einn fundarmanna lýst því yfir, að þetta hafi verið ógeðslegasti fundur sem hann hafi farið á.

Sjálf sagði Birgitta við fundarmenn að átt hefði sér stað mannorðsmorð skömmu áður en hún gekk grátandi af fundi.

Ertu með frétt eða upplýsingar sem þú vilt koma á framfæri?

Netfangið er: viljinn@viljinn.is