Voru allir jafnir frammi fyrir stjórnendum?

Skjáskot: ruv.is

Það var vel til fundið hjá Ríkisútvarpinu að efna til leiðtogakappræðnanna í gær, enda styttist í kosningar og lögbundið hlutverk RÚV þá mikið. Auðvitað er erfitt fyrir áhorfendur að fá einhverja heillega mynd af stefnumálum flokka í svo fjölmennum umræðum, en þetta gefur þó mikilvæga vísbendingu og tækifæri fyrir flokksformenn að koma skilaboðum sínum á framfæri.

En einmitt vegna hins lögbundna hlutverks Ríkisútvarpsins er svo mikilvægt að áhorfendur heima í stofu fái á tilfinningunni að allir séu jafnir frammi fyrir stjórnendum og stofnuninni. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir og Heiðar Már Sigurfinnsson eru góðir fréttamenn og fagleg í sínum störfum, en það skapaði óþægilegar spurningar hjá áhorfendum þegar þau gripu aðallega fram í fyrir leiðtogum stjórnarandstöðunnar en ekki oddvitum ríkisstjórnarflokkanna.

Það er allt í góðu (og stundum alveg nauðsynlegt) fyrir stjórnendur slíkra þátta að halda dagskránni og koma viðmælendum ekki upp með að tala um eitthvað allt annað en spurt er um, en þá verður það að gilda um alla en ekki bara suma…