„Yndislegt að finna ólgu samkeppni í æðum okkar“

Margir eru hugsi yfir þeim tíðindum að frá og með næstu viku verði sjónvarpsfréttir Stöðvar 2 einungis aðgengilegar áskrifendum stöðvarinnar í læstri útsendingu.

Flestir telja þetta endurspegla hörmulega samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla gagnvart Ríkisútvarpinu og hafa réttmætar áhyggjur af því að verið sé að taka fyrsta skrefið í að leggja niður einu samkeppnina við ríkið í sjónvarpsfréttum.

Sú samkeppni hefur staðið allt frá stofnun Stöðvar 2 árið 1986. Er óhætt að segja, að fréttastofa Stöðvar 2 hafi unnið sér skjótt inn miklar vinsældir og áhorf, enda þótt mörgum finnist hún hafa látið á sjá undanfarin ár og skúbb þar á bæ séu ekki jafn algeng og áður var.

Ingvi Hrafn harmar tíðindin á fésbókinni og segir:

„Ég var fréttastjóri RÚV þegar Páll Magnússon, beint úr varafréttastjórastólnum hjá mér, frumsýndi fyrstu samkeppnina á sviði sjónvarpsfrétta á St2. Man hversu yndislegt það var að finna ólgu samkeppni í æðum okkar allra, sem höfðum setið feit og fín í fréttaeinokunarmusterinu við Laugaveg. Sú staða má einfaldlega ekki koma upp aftur á eyjunni bláu.“

Líklega geta margir tekið undir það.